139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

rannsókn samgönguslysa.

408. mál
[17:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Það kom reyndar fram í máli hans að frumvarpið er mjög sambærilegt — ég tel að það séu einhverjar litlar breytingar á því, hef alla vega ekki rekist á þær mjög efnislegar miðað við umfjöllunina sem var á 138. löggjafarþingi eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Mig langar að spyrja hann vegna þess að töluverðar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið við sameiningu þessara nefnda. Menn höfðu miklar efasemdir um marga þætti, mismunandi eftir hvaða aðilar það voru. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið unnið í samráði við þá sem áður höfðu gert athugasemdir við frumvarpið. Umræðan var þannig í hv. samgöngunefnd að menn, margir hverjir, voru komnir á þá skoðun að gera þetta á þann veg að nefndirnar yrðu sameinaðar, en eigi að síður yrðu þessir faghópar starfandi áfram undir nefndunum, þ.e. einn um rannsókn flugslysa, annar um rannsókn umferðarslysa og þriðji um rannsókn sjóslysa.

Eins og þetta er sett upp í dag má ekki nýta mannaflann og upplýsingarnar á milli þessara nefnda með þeim hætti sem æskilegt væri að gera. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið unnið í samráði við þá sem gerðu á fyrri stigum málsins mjög alvarlegar athugasemdir við það.

Við ræddum annað atriði, sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um, í öðru máli sem hann mælti fyrir hér á undan. Það kom fram í mjög alvarlegum athugasemdum við frumvarpið að kostnaðargreining fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins var ekki nógu ítarlega rökstudd. Við óskuðum einmitt eftir því að fá gögnin á bak við rökstuðninginn með hagræðingunni en hann kom aldrei fram. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort sérstaklega hafi verið farið yfir það mál.