139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

rannsókn samgönguslysa.

408. mál
[17:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kann ekki svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns varðandi kostnaðargreiningu þessara breytinga sem almennt er talið að leiði til hagræðis og sparnaðar.

Megináherslan í þeirri gagnrýni sem fram kom þegar málið var til umræðu hér síðast á þingi laut að sérfræðiþekkingu, að með samrunanum, með fækkun í stjórninni, glataðist sérfræðiþekking. Til að svara þeirri gagnrýni var stjórnarmönnum fjölgað úr fimm í sjö.

Varðandi sérfræðiþekkinguna er á það að líta að á vegum nefndarinnar eru starfandi sérfræðingar sem eru sérhæfðir á tilteknum sviðum þannig að reynt er að tryggja að sérhæfing og sérfræðingar komi að þessum málum. Eftir að hafa skoðað frumvarpið rækilega út frá því tilliti, gert einhverjar breytingar til að koma til móts við þá gagnrýni, teljum við rétt að leggja frumvarpið fram að nýju í þeirri von að það hljóti núna samþykki Alþingis.