139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga. 8. október 2008 beittu bresk stjórnvöld Íslendinga miklu harðræði er þau beittu umdeildum lögum um varnir gegn hryðjuverkum en gagnrýnt hafði verið þegar þessi lög voru sett í Bretlandi, frú forseti, og talið að þeim kynni að verða misbeitt eins og kom á daginn. Með þessu skipuðu bresk stjórnvöld undir forsæti Gordons Browns Íslendingum á bekk með hættulegustu mönnum og samtökum í heiminum og þar sat íslenska þjóðin í átta mánuði. Bresk stjórnvöld réðust þannig að fullveldi þjóðar sem hafði verið vinur og bandamaður um langa hríð. Þetta var árás sem mjög líklega gerði stöðu íslensku þjóðarinnar enn erfiðari en ella.

Í raun er óljóst hvað réði því að bresk stjórnvöld brugðust vinum sínum með þessum hætti. Ýmsar kenningar eru uppi en svarið liggur ekki fyrir. Íslensk stjórnvöld ákváðu að bregðast ekki við af hörku í von um að halda diplómatískum tengslum, eins og málið horfir við þeim er hér stendur. Nokkrir þingmenn, þar á meðal Guðni Ágústsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, kölluðu eftir hörðum viðbrögðum og hvöttu til tafarlausrar málsóknar á hendur Bretum. Íslenskir sérfræðingar í lögum lýstu því strax að málstaður breskra stjórnvalda væri veikur en stjórnvöld töldu aðrar leiðir betri.

Björg Thorarensen, forseti lagadeildar HÍ, flutti fyrirlestur á ráðstefnu 1. desember 2008. Með leyfi forseta ætla ég að lesa stuttan kafla úr ávarpi Bjargar:

„Markmið bresku laganna um hryðjuverkavarnir er allt annað en það sem helgaði beitingu þeirra gagnvart Landsbankanum og sjóðum tengdum honum 8. október sl. Þessar heimildir komu inn í bresk lög haustið 2001 eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum í kjölfar fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar var kveðið á um skyldu allra ríkja heims til að frysta tafarlaust innstæður í bönkum þar sem grunur léki á fjármögnun til alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi. Í bresku hryðjuverkalögunum er þetta markmið útfært nánar. Þar er stjórnvöldum veitt heimild til að fyrirskipa frystingu eigna þegar hætta er á að breskt efnahagskerfi eða líf og limir breskra borgara verði fyrir tjóni og að sú hætta stafi frá borgurum eða stjórnvöldum erlends ríkis. Öll ríki bera þá þjóðréttarskyldu gagnvart öðrum ríkjum að koma fram við borgara þeirra á lögmætum grundvelli og samkvæmt ákveðnum meginreglum þjóðaréttarins. Þá ber þeim að virða grunnreglur réttarríkisins þegar stórfelldar takmarkanir á mannréttindum eiga sér stað, hvort heldur gagnvart einstaklingum eða lögaðilum, á yfirráðasvæði þeirra.

Með aðgerðum breskra stjórnvalda var í raun brotið gegn þjóðréttarskyldum í samskiptum við annað ríki sem er sjálfstætt skoðunarefni sem íslenska ríkið getur sótt rétt sinn vegna. Auk þess var brotið gegn réttindum íslenskra aðila sem þannig eignast kröfu á hendur breskum stjórnvöldum. Um það síðarnefnda eru afdráttarlausar skyldur leiddar af mannréttindasáttmála Evrópu sem Bretland hefur gengist undir og jafnframt leitt í lög. Frysting á eignum og aðrar þungbærar aðgerðir sem Landsbankinn varð fyrir á grundvelli hryðjuverkalaganna brutu gegn eignarréttindum sem vernduð eru af sáttmálanum, þar sem lagastoð fyrir þeim skorti. Aldrei fyrr hefur hryðjuverkalögunum verið beitt við slíkar aðstæður og ég tel af og frá að þeim hefði verið beint að nokkru öðru ríki í Evrópu — innan eða utan ESB. En ekkert annað Evrópuríki innan Evrópusambandsins brást við til að taka undir augljós mótmæli íslenskra stjórnvalda.“

Frú forseti. Bresk stjórnvöld létu ekki þar við sitja heldur kröfðu íslenska þjóð um bætur vegna Icesave-reikninganna, Icesave-reikninga hins einkarekna Landsbanka, bætur fyrir tjón sem varð innan reglna Evrópusambandsins og þar með breskra stjórnvalda. Ríkisstjórn Verkamannaflokksins breska krafði íslenska þjóð um bætur um leið og árás Breta með hryðjuverkalögunum olli Íslendingum miklum vandræðum og án efa miklu fjárhagstjóni. Hvers vegna þögðu hinar svokölluðu vinaþjóðir okkar þunnu hljóði þegar á Ísland var ráðist? Við þessu átti að bregðast og við þessu á að bregðast.

Svo fór að nokkrir einstaklingar tóku sig til og stofnuðu félagsskap sem kallast Indefence. Almenningur tók við sér og sýndi og sannaði að íslensk þjóð þorir að standa á rétti sínum. Um 80 þús. Íslendingar mótmæltu hryðjuverkaárás breskra stjórnvalda á íslenska þjóð.

Frú forseti. Það er löngu kominn tími til að Alþingi og þjóðin sameinist um að leita réttar síns vegna svívirðilegrar ákvörðunar breskra stjórnvalda og sú ályktun sem hér er mælt fyrir hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að undirbúa málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum. Málsóknin verði í fyrsta lagi byggð á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið tilefnislaus, ekki lögum samkvæmt og hafi skaðað íslenskt orðspor og fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar. Í öðru lagi verði gerð krafa um skaðabætur fyrir það tjón sem ákvörðun breskra stjórnvalda olli íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum.“

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir m.a.:

Hinn 8. október 2008 beittu bresk stjórnvöld lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn Landsbanka Íslands, frystu eignir bankans og settu þar með Ísland á lista yfir hættulegustu samtök og menn heimsins. Með þeim aðgerðum skilgreindu bresk stjórnvöld Ísland og Íslendinga sem hryðjuverkamenn.

Ekki þarf að fjölyrða um þann orðsporsskaða sem hlaust af ákvörðun breskra stjórnvalda. Á einni nóttu hvarf traust á viðskiptum við Íslendinga og íslensk fyrirtæki sem ríkt hafði í áratugi. Í viðtali við Fréttablaðið 21. október 2008 segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni sem ekki er hægt að mæla. Viðskiptasambönd hafa trosnað, greiðslufrestur felldur niður og staðgreiðslu krafist. Ofan á þetta bætist gríðarleg veiking á gengi krónunnar.“ Hann sagðist sjá fram á hrinu uppsagna í verslun og þjónustu fyrir mánaðamót. „Menn reyna að tóra og hagræða eins og þeir lifandi geta en við óttumst uppsagnahrinu. Spurningin er aðeins hversu stórkostleg hún verður.“

Í grein eftir Magnús Inga Erlingsson, sem birt var í Morgunblaðinu 3. nóvember 2008, segir m.a., með leyfi forseta:

„Með beitingu hryðjuverkalaga Breta var traust á stjórnvöldum og íslenskum fyrirtækjum þurrkað út á erlendum vettvangi og viðskipti við landið lömuðust. Hökt hefur verið á gjaldeyrisviðskiptum við landið. Á því tjóni bera bresk stjórnvöld ábyrgð samkvæmt skaðabótareglum Evrópusambandsins og EES-samningsins sem þróast hafa fyrir tilstilli dómafordæma Evrópu- og EFTA-dómstólsins.“

Ljóst má vera að beint og óbeint tjón íslensks atvinnulífs varð gríðarlegt og dýpkaði þannig þá efnahagslegu kreppu sem skollin var á. Margt bendir því til þess að fjárhagslegt tjón íslensku þjóðarinnar og íslenskra fyrirtækja vegna aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar sé mikið. Því er eðlilegt að bresk stjórnvöld axli ábyrgð á því tjóni sem ákvörðun þeirra olli og greiði skaðabætur, enda um ólöglega og svívirðilega framkomu að ræða, með tilliti til þess að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hélt því ranglega fram í ræðu sinni í breska þinginu kl. 12.33 8. október 2008 að bankinn Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) hefði verið settur í skiptameðferð á síðustu klukkustund þegar hið rétta var að á þessum tíma hafði breska fjármálaeftirlitið (FSA) bannað KSF að taka við nýjum innlánum. Því er ekki ljóst hvað er orsök og hvað afleiðing þegar kemur að atburðarásinni við fall Kaupþings, þ.e. ummæli Darlings í breska þinginu eða bann FSA við því að Kaupthing Singer & Friedlander tæki við nýjum innlánum. Í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að sýnt sé að atvik þau sem tengdust KSF hafi ráðið úrslitum um fall Kaupþings.

Aðgerðir breskra stjórnvalda í kjölfar falls íslensku bankanna hafa að öllum líkindum leitt til mikils tjóns fyrir íslensku þjóðina. Því er nauðsynlegt að fá staðfest fyrir alþjóðlegum dómstól að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið með öllu óviðeigandi og að aðgerðirnar hafi ekki verið málefnalegar og löglegar og aldrei ljóst að gríðarleg ógn steðjaði að stöðugleika breska fjármálakerfisins eins og breska ríkið hefur haldið fram. Þá verður varla horft fram hjá orðum breska varnarmálaráðherrans í norskum fjölmiðlum um að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið ómakleg og verði líklega ekki notuð aftur með sama hætti. Yfirlýsingu ráðherrans má túlka sem viðurkenningu á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið vafasöm og jafnvel viðurkenningu á því að íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki eigi skaðabótakröfu á bresk stjórnvöld vegna aðgerða þeirra.

Við undirbúning málsóknarinnar er mikilvægt að fá eins nákvæma mynd af tjóninu og hægt er. Eðlilegast væri að lögmenn þeir er sækja mundu málið fyrir Íslands hönd fengju sérfræðinga til að afla upplýsinga og leggja mat á það tjón sem ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar olli íslensku þjóðinni og fyrirtækjum á Íslandi.

Frú forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar er flutt og lögð fram af mörgum þingmönnum úr flestum stjórnmálaflokkum. Það er von okkar að tillagan verði til að sameina þingið og þjóðina í því að leita réttar síns gagnvart þeirri ákvörðun breskra stjórnvalda að ráðast gegn þjóð sem hafði verið vinur til margra ára.

Frú forseti. Ég legg því til að tillögu þessari verði að lokinni umræðunni vísað til utanríkismálanefndar til frekari vinnu.