139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans. Fyrst vil ég koma því á framfæri við hann að ég var að lýsa persónulegri upplifun minni af því hvers vegna ríkisstjórnin þáverandi, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, fór ekki harðar fram í að höfða mál á hendur Bretum. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að sérfræðingarnir töldu ekki ráðlegt að gera það fyrir breskum dómstólum. Við skulum hafa það á hreinu að þannig var það. Eftir því sem ég best veit hefur ekki verið útilokað að alþjóðlegir dómstólar geti tekið upp þetta mál og vísa ég þar meðal annars til raka í ávarpi Bjargar Thorarensen sem ég las upp í ræðu minni.

Ég hrökk aðeins við í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann notaði orðin „að málið sé að leysast“. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða mál það er nákvæmlega sem hæstv. ráðherra vitnaði í sem er að leysast því að ég veit ekki til þess að núverandi ríkisstjórn eða önnur hafi farið út í að krefja bresk stjórnvöld um bætur eða að mæta okkur af einhverri sanngirni út af setningu hryðjuverkalaganna. Ef hæstv. ráðherra er að vísa til Icesave-samninganna þá er merkilegt til þess að vita að það sé litið á þá sem lausn á þessu máli einnig, sem lausn á því að Bretar beittu okkur þeirri svívirðu að setja hryðjuverkalög á Ísland. Er það virkilega svo að við ætlum að borga Bretum og Hollendingum, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt þessu Icesave-samkomulagi, tugi milljarða til að leysa eitthvert mál sem tengist hryðjuverkalögum? Það getur ekki verið. Það að leita réttar síns gagnvart beitingu hryðjuverkalaganna er sérstakt mál sem verið er að leggja fram hér.