139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú mætti hv. þingmaður kannski sperra örlítið betur sín fallegu skagfirsku eyru og hlusta á það sem ég segi. Það mál sem ég sagði að væri að leysast var nefnt í tilefni af setningunni sem ég sagði á undan. Ég vísaði þá til ágætra samtaka sem ég meira að segja nefndi á nafn, Indefence-samtakanna, og sagði að þau hefðu komið að þessu máli, hefðu viljað fara ákveðna leið og hefðu líka, sagði ég, lagt gjörva hönd á plóginn við lausn annars máls sem nú væri að leysast.

Ég tel að það sé hægt að leysa Icesave-málið og ég hef sagt það mörgum sinnum í þessum sal að ég telji það m.a. að verulegu leyti samtökum eins og Indefence að þakka. Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína. Ég er reyndar ósammála hv. þingmanni um að Íslendingar muni þegar upp er staðið þurfa að borga marga tugi milljarða. Ég ætla að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að hann ásamt öðrum hv. þingmönnum hló að mér þegar ég lýsti því yfir í upphafi þessa máls að mín skoðun væri að það mundi takast að vinna þannig úr búinu að það nægði til að borga allan höfuðstólinn. Ef hv. þingmaður er hnútum kunnugur í þessu máli, nú man ég ekki hvort hann situr í fjárlaganefnd, þá ætti hann að vita að niðurstaðan er miklu hagstæðari núna en hún var jafnvel í upphafi þessarar þriðju lotu Icesave. En það mun væntanlega koma í ljós í umræðum næstu daga því að ef ég skil það rétt verður það mál til umræðu á morgun og hinn.