139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstóli og höfum þurft að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra halda uppi vörnum fyrir fyrri ríkisstjórnir með alveg hreint dæmalausum rökum. Hefur gjarnan verið gripið í þau rök sem þingmenn og landsmenn allir hafa verið hræddir með, hin svokölluðu hræðslurök. Ég ætla að rifja upp andann sem sveif yfir vötnum þann 8. október 2008 þegar Bretar beittu Íslendinga hryðjuverkalögum.

Ég ætla að lesa upp úr grein í Morgunblaðinu, með leyfi forseta, þar sem vitnað er í Financial Times:

„Sagði þar að um væri að ræða lög um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggismál, sem sett voru eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.“

Svo leyfir hæstv. utanríkisráðherra sér að koma hingað upp og segja að til séu fjölmörg dómafordæmi sem snúa að þessum lögum í Bretlandi. Þvílík blekking. Í þessari grein, sem birtist í Financial Times þennan dag, segir að árásin á íslensku þjóðina hafi verið fordæmalaus. Við skulum átta okkur á því hvað þetta var mikil árás á smáþjóð hér norður í hafi.

Það er svo sem ekki nýtt að hér sé gripið til hálfsannleika. Hæstv. utanríkisráðherra efast um að hægt sé að fara með þetta mál fyrir dómstóla en ég ætla að benda á umræður frá því að við ræddum Icesave í fyrsta og annað sinn. Ég stóð hér í mörgum ræðum í þrætum við hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að hann fullyrti að ekki væri hægt að fara með Icesave fyrir dómstóla.

Nú, mörgum mánuðum og mörghundruð milljörðum síðar — Framsóknarflokkurinn ásamt Indefence-hópnum og öðrum íslenskum aðilum stóð í lappirnar og barðist fyrir viðurkenningu á því að Íslendingum bæri ekki lagaleg skylda til að borga Icesave — hefur komið í ljós að EFTA-dómstóllinn stendur okkur opinn, við getum sótt það mál til erlends dómstóls. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur tamið sér, að hræða fólk til hlýðni. En við þingmenn Framsóknarflokksins vorum fljótir að sjá í gegnum það.

Hér kemur hæstv. forsætisráðherra og gerir lítið úr þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir. Hann ætti frekar að fagna því, því að betra er seint en aldrei. (Utanrrh.: Ég er utanríkisráðherra.) Ég sagði víst forsætisráðherra en hæstv. ráðherra er utanríkisráðherra, ég biðst afsökunar á því. Þessi sami ráðherra gerði lítið úr þessari þingsályktunartillögu og spurði hvers vegna hún væri ekki löngu komin fram. Það gæti kannski verið svo að nú hafi skapast grundvöllur fyrir slíka tillögu eftir að ljóst er orðið að málflutningur okkar í Icesave bar árangur. Við skulum ekki gleyma því hvernig að Icesave var staðið en nú er ríkisstjórnin að koma með það mál í þriðja sinn fyrir þingið. Tillagan er hluti af málflutningi okkar í því máli, það stendur nefnilega hvergi í evrópskum reglum eða í íslenskum lögum að okkur beri að borga Icesave. Það er bannað að hafa ríkisábyrgð á Icesave og innstæðutryggingum eins og segir í reglugerð frá 1994 sem okkur var uppálagt að lögfesta þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Hæstv. utanríkisráðherra fór líka fram með það að Íslendingar hefðu fengið lítinn stuðning úr Evrópu, úr Evrópusambandinu sjálfu, vísaði til þess að einhver Finni, háttsettur í Evrópusambandinu, hefði gefið það út að við hefðum enga dómhá í málinu. Hvers vegna var ekki leitað til þjóða sem hafa sambærileg lög samkvæmt engilsaxneskum rétti, svokölluð Common Law? Við erum að tala um Ástralíu, við erum að tala um Bandaríkin og allan hinn enskumælandi heim. Nei, þá fór ríkisstjórnin beint til Bretlands til að spyrja hvort við gætum nokkuð farið með þetta mál fyrir dómstóla, hvort við gætum nokkuð sótt rétt okkar fyrir breskum dómstólum því að það voru fyrst og fremst þeir sem fóru af stað með þessi lög á okkur.

Öll þessi rök könnumst við við frá því að við stóðum hér á þingi marga dýrmæta klukkutíma til að berjast gegn því að ríkisstjórnin sturtaði yfir þjóðina fleiri hundruðum milljarða til þess eins að halda frið í hinu svokallaða alþjóðasamfélagi sem hjá Samfylkingunni nær víst ekki lengra en til Evrópu.

En svona hefur verið haldið á málunum og það sem undrar mig hvað mest, og er eiginlega grætilegast í störfum ríkisstjórnarinnar, er það hversu illa hefur verið haldið á málstað Íslendinga í Icesave-viðræðunum. Af hverju voru þessi rök ekki tekin fram fyrr í þessum viðræðum? Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum að ósekju. Út af hverju var ekki hafin gagnárás og sagt: Við borgum ekki krónu, það voruð þið sem steyptuð landinu nánast á hausinn? Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni er t.d. haft eftir framkvæmdastjóra Verslunar og þjónustu, með leyfi forseta:

„Ekki þarf að fjölyrða um þann orðsporsskaða sem hlaust af ákvörðun breskra stjórnvalda. Á einni nóttu hvarf traust á viðskiptum við Íslendinga og íslensk fyrirtæki sem ríkt hafði í áratugi.“

Aldrei heyrði maður á það minnst í þessum samningaviðræðum, eða yfir höfuð sem rök í máli ríkisstjórnarinnar, að beita ætti gagnsókn og fara fram. Það er hins vegar trú mín að það séu Bretar sem skulda okkur fjármagn en ekki öfugt.

Frú forseti. Ég ásamt mörgum fleiri þingmönnum flyt þessa þingsályktunartillögu. Nú fer hún í þinglega meðferð og þar koma umsagnaraðilar að eins og gerist í öðrum þingmálum. Máli mínu til stuðnings ætla ég að vísa í að Evrópusambandið er okkur ekki hliðhollt í þessu máli eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir tilkynnti hér í þinginu í dag en hún er formaður Íslandsdeildar Evrópuþingsins sem fór fram á það í janúar árið 2009 að Evrópuráðið skoðaði hugsanleg álitamál í tengslum við beitingu hryðjuverkalaganna gegn íslenskum hagsmunum í Bretlandi.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem fer fyrir þessari nefnd, upplýsti það á Alþingi í dag að mannréttindanefnd Evrópuþingsins hefði ákveðið að ljúka ekki þeirri skýrslu sem hún var beðin um að vinna um þetta mál, þ.e. hvort réttmætt hafi verið af breskum stjórnvöldum að beita hryðjuverkalögum til þess að frysta eigur Landsbankans. Þessari skýrslugerð var með öðrum orðum, frú forseti, stungið undir stól því að Evrópusambandið treysti sér ekki til að taka á málum. Það á að láta þetta fjara út. Þó að þessi þingsályktunartillaga okkar hér í dag verði ekki til annars en að ýta við mannréttindanefnd Evrópuþingsins til þess að taka málið upp aftur og skapi þar einhvern þrýsting á mannréttindanefndina væri það eitt fullur sigur fyrir utan það að við höldum því hér vel til streitu og höldum því uppi í Icesave-málinu, sem er að koma enn einu sinni fyrir þingið, að við eigum auðvitað að fara fram með málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstóli. Frú forseti, þetta eru lokaorð mín í þessari umræðu.