139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf.

273. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf.

Tillögugreinin ályktar að Alþingi álykti með hliðsjón af markmiðsgrein laga um grunnskóla, þess efnis að starfshættir grunnskóla skuli meðal annars mótast af kristinni arfleifð, að mikilvægt sé að opinberir skólar vandi til fræðslu um kristinn menningararf þjóðarinnar í þeim tilgangi að stuðlað verði að auknum skilningi á þeirri arfleifð. Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar trú og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti vel við unað.

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga spannar allt sviðið í þessum efnum; sjálfstæði, tillitssemi, skilning og kærleik í samskiptum manna. Á undanförnum vikum hefur mikið verið rætt í fjölmiðlum meðal skólastjórnenda, kennara og presta um tillögur sem varða samstarf kirkju og skóla og liggja fyrir mannréttindaráði Reykjavíkur. Tillögurnar eru óljósar, illa unnar og illa rökstuddar auk þess sem þeim er ætlað að hindra ýmsa þætti í samstarfi skóla og kirkju sem tíðkast hafa um áratugaskeið. Nægir þar að nefna kirkjuferð skólabarna á aðventu og aðstoð presta þegar nemendur eða kennarar verða fyrir áfalli. Þá er ætlunin að taka fyrir að kirkjan fái að kynna barna- og unglingastarf sitt á vettvangi skólanna til jafns við önnur æskulýðsfélög. Ef kynning á hvers konar öðru æskulýðsstarfi, t.d. íþróttafélaga, er heimil hvers vegna þá ekki kynning á kirkjulegu starfi? Eiga börn og foreldrar ekki rétt á að vita hvað er í boði fyrir börnin og velja sjálf úr? Hvaða ástæða er til að rugga þjóðfélaginu á þennan hátt og ráðast gegn öllum hefðum, öllum viðmiðunum og öllum grunni sem almennt líf í landinu, fjölskyldulíf og menningarlíf, byggist á? Er ekki ástæða til að fara varlega í þeim efnum, virðulegi forseti, að rugga bátnum svo hættulegt gæti orðið fyrir samfélag og öryggi og fyrir líðan fólks í okkar landi? Verði tekið fyrir þessa kynningu er um að ræða ofríki undir merkjum trúfrelsis. Trúfrelsi er meðal annars fólgið í því að hafa tækifæri til að velja. Barnasáttmálinn á til að mynda að tryggja rétt barna til að velja. Það er ekki ætlunin að menn séu settir í rekka eins og útungunarvélar á kjúklingabúum heldur að fólk fái að þroskast, læra, meta og velja.

Annað sem athygli vekur í þeim tillögum sem hafa verið ræddar á síðustu mánuðum og tengjast byltingarstarfi í Reykjavíkurborg er að taka fyrir dreifingu Gídeonfélaga á Nýja testamentinu til skólabarna. Þessi dreifing hefur verið stunduð af Gídeonfélögunum í nærri 60 ár. Þessi afstaða og breyting sem menn ætla er byggð á þeim rökum að skólinn eigi ekki að vera vettvangur fyrir dreifingu trúarrita. Í tillögunum segir meðal annars að dreifing á trúarlegu efni sé ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita svo sem Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis. Með fullri virðingu fyrir Kóraninum, auglýsingabæklingum og öðru kynningarefni hlýtur Nýja testamentið að hafa algjöra sérstöðu hér á landi. Vissulega er Nýja testamentið trúarrit en jafnframt ein af meginstoðum og sterkustu áhrifavöldum á evrópska menningu, til að mynda á sviði bókmennta, myndlistar, tónlistar o.s.frv. Íslensk menning og vestræn verður ekki skilin án þess. Þá er Nýja testamentið einnig hjálpargagn í kristinfræðikennslu. Í Toledo Guiding Principles on Teaching about Religions and Beliefs in Public Schools, sem gefið var út af Office for Democratic institutions and Human Rights og Organization for Security and Co-operation in Europe, með leyfi forseta, er meðal annars hvatt til samstarfs menntastofnana og trúar- og lífsskoðanafélaga við gerð námskrár, námsefnis, kynningu á trúarbrögðum og notkun á kynningarritum frá viðkomandi aðilum, að því gefnu að þau standist fræðilegt mat.

Virðulegi forseti. Kirkjan hefur löngu lýst því yfir að hún viðurkenni og virði ólík hlutverk skóla og kirkju, sem fræðslustofnunar annars vegar og trúboðs- og trúfræðslustofnunar hins vegar. Því hefur líka verið lýst yfir af kirkjunnar mönnum að í skólanum líti þeir á sig sem gesti sem koma til samstarfs á forsendum skólans í takti við hefð, væntingar og viðmiðun sem tíðkast í okkar samfélagi hjá fjölskyldufólki og almennum borgurum þessa lands. Margir skólar sem hafa samstarf við sóknarkirkjur kynna slíkt samstarf á heimasíðu sinni í þeim tilgangi að foreldrar geti brugðist við kjósi þeir að börn þeirra taki ekki þátt í því sem kirkja og skóli bjóða upp á í sameiningu. Það er því deginum ljósara að þær tillögur sem liggja fyrir mannréttindaráði Reykjavíkur skilgreina trúfrelsishugtakið afar þröngt og jafnvel neikvætt svo vægt sé til orða tekið.

Mikilvægt er að skóli í fjölmenningar- og fjölhyggjusamfélagi gæti að réttindum allra. Það er einnig mikilvægt að skólastarfið stuðli að umburðarlyndi og tillitssemi. Þess vegna er nauðsynlegt að mismunur sé sýnilegur, að hægt sé að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun eða aðra siði en þeir sjálfir. Umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi. Það er skylda skólanna að leggja rækt við íslenskan menningar- og trúararf en jafnframt er það skylda skólanna að taka tillit til nemenda sem tilheyra minnihlutahópum. Kennurum og skólastjórnendum er fyllilega treystandi til að sinna þessu hlutverki og hafa ekki þörf fyrir miðstýringu opinberra nefnda í því skyni.

Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að við virðum íslenskan stíl og íslenskan reynsluheim sem hefur þroskast og þróast á Íslandi allt frá því að kristni var lögtekin af Alþingi á Þingvöllum árið 1000. Þar lögðu menn upp með eina þjóð í einu landi og allt sem hefur þróast í þessum efnum á undanförnum áratugum er einmitt í þá átt að tekið sé tillit til allra þátta, allra möguleika og allra tilþrifa á eðlilegan hátt þannig að dyr standi opnar þeim sem kynna ákveðna starfsemi og er hluti af menningu og siðferðisgrundvelli þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að tillagan fari til menntamálanefndar.