139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

aukin fræðsla í skólum um skaðsemi áfengis.

274. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aukna fræðslu í skólum um skaðsemi áfengis. Meðflutningsmenn tillögunnar eru auk mín hv. þingmenn Ólöf Nordal, Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Tillögugreinin er þess eðlis að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að fræðsla verði aukin um skaðsemi áfengis í grunn- og framhaldsskólum.

Rannsóknir benda til að undanfarin ár hafi dregið úr ölvunardrykkju ungmenna á grunnskólaaldri. Sömu þróunar gætir meðal framhaldsskólanemenda þó að samdráttur neyslu sé þar minni. Rannsóknir sýna einnig að fjöldi ungmenna sem neytir áfengis meira en tvöfaldast á þeim örfáu mánuðum frá því að grunnskóla lýkur og framhaldsskólanám hefst. Það er því brýnt að taka enn fastar á í áfengismálum íslenskra ungmenna. Fyrir því liggja gild rök.

Niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna að unglingar sem byrja að neyta áfengis fyrir fimmtán ára aldur eru í fjórum sinnum meiri hættu á að ánetjast alkóhóli eða öðrum vímuefnum og verða fyrir skaða en þeir sem byrja að drekka eftir tvítugt. Það er því mikilvægt að komið sé í veg fyrir að fólk undir tvítugu neyti áfengis.

Skaðsemi áfengisdrykkju fyrir tvítugt er fjölþætt. Því yngri sem unglingar eru þegar þeir byrja að neyta áfengis og því meira magn sem þeir drekka, þeim mun verri áhrif hefur áfengisneyslan á heila þeirra. Þroskatími heilans fram að tvítugu er afar mikilvægur enda verður heilinn ekki fullþroska fyrr en við tuttugu ára aldur. Auk framangreinds má benda á að önnur heilsutengd vandamál, vandamál tengd félagslegri hæfni og hegðunarvandamál hafa talist til fylgifiska slíkrar áfengisneyslu. Þá er rétt að benda á hliðræn áhrif sem felast í skorti á dómgreind sem leiðir til glannaskapar, slysa vegna ölvunaraksturs, ofbeldis, misnotkunar og sjálfsvíga. Hætta á þunglyndi er mun meiri meðal unglinga sem neyta áfengis en þeirra sem ekki drekka. Slíkir unglingar kljást frekar við sjálfsvígshugsanir, eiga oftar í félagslegum vanda og árásargirni þeirra eykst í hlutfalli við drykkjuna.

Hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni liggja fyrir upplýsingar um að allt að fjórðungur dauðsfalla Evrópubúa á aldrinum 15–29 ára séu óbeinar afleiðingar áfengisneyslu, svo sem vegna umferðarslysa, eitrana, sjálfsvíga og morða.

Virðulegi forseti. Þetta er skelfilegt vandamál sem hér er fjallað um. Það má aldrei láta deigan síga í þeim efnum að reyna að styrkja baráttuna gegn þessum vágesti, gegn þessum höfuðóvini sem vínið er. Vínið er líklega versti óvinur mannsins. Þess vegna þurfum við að vera vel á verði og vera vakandi í þessum efnum. Við þurfum að skoða til hlítar alla möguleika til úrbóta og fylgja þeim eftir. Það hefur reynst erfitt í gegnum tíðina en kannski hefur sofandaháttur stjórnvalda í margs konar félagslegu starfi verið of mikill í þessum efnum. Menn hafa horft of mikið fram hjá því að áfengi sé haft um hönd á mannamótum og skemmtunum þar sem það ætti ekki að vera, til að mynda þar sem unglingar eru og sækja í reynsluheim þeirra sem eldri eru.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til menntamálanefndar.