139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Orra Schram, það er afskaplega mikilvægt að hér sé farið eftir verklagsreglum og þeim sem samdar hafa verið fylgt eftir þegar kemur að nokkru eins og sölu fyrirtækja. Hann nefndi mál Framtakssjóðsins en forsagan er sú að við þingmenn komum að því að semja verklagsreglur fyrir ríkisbankann og þeim var ekki fylgt eftir. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að við þurfum að fylgja því eftir að þessum reglum sé framfylgt. Ég lít svo á að verkefnið núna sé að sjá til þess að það verði gert og að um leið verði í nafni bæði skynsamlegra og réttlátra leikreglna upplýst um t.d. verðið sem fyrirtækin sem voru seld úr Vestia voru seld á. Það hefur ekki enn þá verið gert. Við höfum séð fréttir um það í fjölmiðlunum sem eru kannski réttar. Það er svo margt í gangi hér og margir skandalar, en þetta er nokkuð sem við þurfum að sjá til að sé uppi á borði.

Annað mál sem við vorum að upplifa núna er einkavæðingarferli tryggingafélagsins Sjóvár. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur vakið athygli á vinnubrögðunum í tengslum við það. Það hefur ekkert verið upplýst um það. Það eina sem við vitum er að ekki er farið eftir verklagsreglum. Vilji þingmanna er skýr og við skulum fara í að setja lög ef þau vantar, en í þessu tilfelli vantar engin lög, það vantar upp á að framfylgt sé þeim reglum sem settar hafa verið. (Forseti hringir.) Það verða ekki aðrir en við hér inni sem getum fylgt því eftir og ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram (Forseti hringir.) fyrir hlut hans í því. Betur má samt ef duga skal.