139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Munurinn á því að fjármálafyrirtækin axli þennan kostnað en ekki ríkið er sá að þá axla almennir skattgreiðendur ekki kostnaðinn. Það er hugmyndin á bak við það. (Gripið fram í: Ja, bankarnir …) Ég mun að sjálfsögðu breyta afstöðu minni til málsins ef sú leið verður farin eða er fær að koma í veg fyrir að þessi kostnaður lendi beinlínis á almenningi.

Hvað varðar orð Lees Buchheits viðhafði hann þau á fundi um þetta mál í Skandinavíska-ameríska félaginu í New York þar sem hann sagði að hann hefði verið fenginn til þess af hálfu íslenskra stjórnvalda að semja um Icesave. Og það gerði hann. Hann sagði hins vegar að skoðun hans sjálfs væri sú að Ísland ætti ekki að borga þetta. Hann var fenginn til þess að ná samningi og hann náði góðum samningi en engu að síður taldi hann að Ísland ætti ekki að borga þetta. Hann var hins vegar ekki fenginn til þess að halda þeirri afstöðu fram. (Utanrrh.: Hann … Buchheit kallar sjálfur besta samninginn sem unnt er að ná.)