139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp í andsvar til að gera athugasemd við ákveðinn þátt í nefndaráliti hv. þm. Þórs Saaris. Ég hef ekki tíma til að fara efnislega ofan í það í þessu stutta andsvari en í kaflanum um verklag fjárlaganefndar og Alþingis er talað um samkomulagið sem þingflokksformenn gerðu undir jólahlé um skipulag umræðunnar um Icesave eða frumvarpið sem hér er til umræðu og fundi í fjárlaganefnd.

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, af því að nú hafa hv. þingmenn Hreyfingarinnar löngum komið hér upp og talað sem boðflytjendur góðra vinnubragða og gott ef ekki hins góða siðferðis líka, að ég kann því ekki vel, þó að ýmislegt sé hægt að segja um hið háa Alþingi, að hér sé verið að tilgreina í nefndaráliti hvort tiltekinn hv. þingmaður hafi tekið sér leyfi frá störfum eða ekki. Hér var jólahlé í heilar fjórar vikur. Það var ákveðið að reyna að nýta tímann í vikunni í aðdraganda þess að við komum aftur saman til starfa 17. janúar til að halda tvo eða þrjá fundi, vissulega langa, í fjárlaganefnd og nýta tímann sem er ekki nema eðlilegt, enda starfa þingnefndir allan ársins hring.

Hvað á það að þýða, frú forseti, hverju á það að skila fyrir þessa umræðu eða inn í störf nefndarinnar að skrifa svona í nefndaráliti?