139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal spyr mig af hverju hæstv. fjármálaráðherra hafi samþykkt málið áður en sérfræðingar höfðu farið yfir það, hvaða hvatir hafi legið þar að baki. Ég veigra mér við að setja mig inn í þankagang hæstv. fjármálaráðherra. Ég veigra mér við að setja mig inn í þankagang hæstv. utanríkisráðherra. Ég er ekki viss um að mér mundi farnast neitt sérstaklega vel þar inni (Utanrrh.: Þú kemst aldrei út aftur.) og efast um að ég kæmist út aftur. Ég vil ekki svara þessu. Ef þingmaðurinn er hins vegar að spyrja mig óbeint hvort ég telji að hæstv. fjármálaráðherra sé að reyna að varpa sökinni á einhverja aðra hef ég talið að þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samþykktu Brussel-viðmiðin hafi ekki falist í því skuldbinding á Icesave-samkomulaginu eins og ég heyrði haldið fram í umræðunni áðan. Samkvæmt stjórnarskránni þarf að samþykkja á Alþingi hverja þá skuldbindingu sem varðar ríkissjóð. Ég tel ekki að þar hafi verið komið inn á bindandi skuldbindingu. Ég get ekki svarað þingmanninum betur um hvatir og þankagang hæstv. fjármálaráðherra.