139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og það ágæta yfirlit sem hann hafði uppi um afstöðu mína í málinu á fyrri stigum og var þar engu hallað. Það er fullkomlega rétt að ég hef staðið að lausn þessa máls frá fyrsta degi og geri það enn.

Ég get vel horfst í augu við kjósendur mína sem og alla kjósendur á Íslandi með þá fortíð að baki, eins og hv. þingmaður kaus að orða það. Mín fortíð snýr að því að leysa það vandamál sem hv. þingmaður ber meðal annars ábyrgð á sem fyrrverandi stjórnarliði, sem einn af þeim hugmyndafræðingum sem ólu af sér þetta mál. Ég gæti snúið spurningunni við og spurt hv. þingmann að því, virðulegi forseti, hvernig í ósköpunum hann geti staðið hér og horfst í augu við kjósendur sína og landsmenn yfir höfuð með sína fortíð á bakinu hvað þetta varðar.

Aðkoma mín að Icesave-málinu snýr að lausn þess. Hún snýr að því að leysa málið. Það má hundskamma mig fyrir að vera ekki búinn að leysa það fyrr, ég skal alveg standa undir því. En mín fortíð í þessu starfi í þessum sal snýr að því að leysa málið en ekki að búa það til og af því er ég hreykinn. Ég skammast mín ekki fyrir fortíð mína hvað það varðar frekar en fyrir önnur endurreisnarmál sem ég hef staðið að ásamt félögum mínum á þessu kjörtímabili.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig getur hann horfst í augu við kjósendur sína með þá fortíð að baki sem hann á hér sem stjórnarliði og ábyrgðarmaður ásamt fleirum á þessu ógurlega Icesave-máli sem við erum þó að leysa í dag?