139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ábyrgð mín er mikil og hún leynir sér ekki. Hún er ekkert minni en ábyrgð hv. þm. Péturs H. Blöndals sem talaði á undan. Ég er ekki að vísa á neitt annað. Ég er að vísa á sjálfan mig, ég er að vísa á fortíð mína í þessu máli sem snýr ekki að vandamálinu heldur að lausninni. Þar er mín fortíð fólgin. Ég mun geta horft hreykinn til baka þegar þessu máli hefur verið landað, að hafa þó landað enn einum skandalnum, enn einu sukkinu sem íslensk þjóð sat uppi með haustið 2008. Það má hundskamma mig fyrir að hafa ekki verið búinn að leysa málið fyrr og okkur félagana sem að því stöndum en við erum þó að leysa vandamálið en ekki að búa það til.

Það má líkja þessu við að ofbeldismaður hundskammi fórnarlamb sitt fyrir að sárin grói ekki nógu hratt. Það er sambærilegt við það þegar fyrrum stjórnarliðar skammast í ríkisstjórninni fyrir að vera ekki búin að leysa öll þau vandamál sem þeir skópu sjálfir á sínum tíma.