139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:08]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um 3. áfanga í Icesave-málinu svokallaða sem hefur tekið drjúgan tíma að því er sá er hér stendur telur. Það hefur tekið um 22 mánuði, rösklega hálft annað ár og er það í sjálfu sér vel vegna þess að það þarf að fjalla ítarlega um þetta mál sem hefur legið eins og mara á þjóðinni allan tímann frá því að það varð til eftir hrun. Icesave-málið hefur reynst þjóðinni erfitt, það hefur reynst pólitíkinni erfitt en ef til vill hillir undir lok þess.

Við fjöllum um nýja samninga undirritaða af nýrri samninganefnd sem komið var á með þverpólitískri sátt flokkanna. Sú sátt hefði ef til vill átt að koma fyrr inn í það mál. Samningsgerðin á fyrri stigum var ef til vill á hendi of fárra og hefði betur verið á hendi fleiri. Þá hefðu Icesave-samningarnir ef til vill verið komnir fyrr í höfn.

Þessir nýju samningar eru svokallaðir endurgreiðslusamningar í stað lánasamninga og veldur þar miklu hversu betri þeir eru en hinir fyrri að vextir eru lægri og formið annað og kem ég reyndar nánar að því síðar í ræðu minni. Að mati þess sem hér stendur hefur verið vandað til verka, fjárlaganefnd hefur haft málið til umfjöllunar, fjallað um það á fjölda funda, fengið til síns margs konar sérfræðinga, ekki einsleita heldur menn sem koma hver úr sinni áttinni til að fjalla um þetta erfiða úrlausnarefni, jafnt lögfræðinga sem hagspekinga og menn úr stofnunum og fyrirtækjum úti í bæ. Ég tel að fjárlaganefnd hafi fengið ágætlega rúman tíma til að fjalla um þetta mál enda þótt tíminn sé ef til vill afstæður í svona málum og aukinheldur hefur fjárlaganefnd fengið liðsinni margra innan þings og utan til að ljúka þessu máli fyrir þessa umræðu.

Stóra spurningin hefur ávallt verið í þessu máli: Eigum við að borga eða eigum við ekki að borga og ef við eigum að borga, hver er áhættan af því? Álit þeirra fjöldamörgu gesta sem komu á fund fjárlaganefndar í þriðju atrennu þessa máls er almennt í þá veru að við eigum að semja og að þeir samningar sem nú liggi fyrir séu að mörgu leyti ásættanlegir, það fari betur á því að semja með þessum samningi frekar en taka áhættuna af dómsmáli. Vikið er að dómstólaleiðinni á bls. 4 í áliti meiri hluta fjárlaganefndar og mun ég nú vitna í það, með leyfi forseta. Þar er sagt:

„Allt frá haustinu 2008 hefur það verið markmið íslenskra stjórnvalda að semja um lausn Icesave-deilunnar jafnvel þótt lagaleg skuldbinding hafi ekki verið viðurkennd af Íslands hálfu. Við mat á því hvort samþykkja eigi það lagafrumvarp sem hér um ræðir er nauðsynlegt að meta áhættuna af því að ganga ekki til samninga og þá áhættu sem er í því fólgin að Ísland bíði lægri hlut í dómsmáli.

Ljóst er að dómstólaleiðin tryggir rétta lögfræðilega niðurstöðu þó að vafi leiki á að hún tryggi hagstæðustu niðurstöðu fyrir Ísland. Skiptar skoðanir eru á því meðal lögfræðinga hver líkleg dómsniðurstaða yrði í málinu. Jafnvel þótt dómsmál vinnist er kostnaður í því fólginn að fara dómstólaleiðina og dragist dómsmálið á langinn mun óvissan ríkja lengur og tjónið aukast sem af óleystri deilunni hlýst.“

Sumir hafa lýst því svo að miðað við fyrirliggjandi samning sé áhættan annars vegar 47 milljarðar sem geta fallið á ríkið miðað við útreikninga manna en hins vera 0 krónur upp í 500 milljarða með dómstólaleiðinni. Þetta verða menn að meta og hafa svo sem gert í þeim álitum sem liggja fyrir hjá fjárlaganefnd. En sá sem hér stendur telur að tímaþátturinn sé líka stór hluti af áhættunni, það getur hægt verulega á efnahagsbata samfélagsins og endurreisn þess að bíða með málið svo missirum skiptir vegna dómstólaleiðarinnar. Þá áhættu verður líka að reikna inn ef fara á dómstólaleiðina.

Menn hafa sagt að áhættan af nýjum samningi sé einkanlega þríþætt og snúi að vöxtum, gengisáhættu og endurheimtum úr búi gamla Landsbankans. Mun ég nú eilítið víkja að því máli.

Þeir sem komu fyrir fjárlaganefnd Alþingis, í umræðu um Icesave-málið, voru svo að segja á einu máli um að gengisáhættan væri innan eðlilegra marka. Gengisvísitalan er um 210 stig um þessar mundir og það hefur verið álit bæði Seðlabankans og ýmissa greiningarfyrirtækja að krónan eigi mikið inni og sé miklu fremur á leið undir 200 stigin. Það hefur verið rætt um 170–180. Sællar minningar var hún einu sinni 140 en jafnframt er talað um að áhættan verði veruleg ef gengisvísitalan fari upp í 240. Litlar sem engar líkur virðast vera á því og engar reyndar eins og margir sem komu fyrir nefndina segja því að tilhneiging gengisins er miklu fremur í hina áttina, að fara undir 200 stigin, og er hægt að vitna þar til umsagnar Seðlabanka Íslands, IFS-greiningar og GAM Management sem kom á fund nefndarinnar.

Frú forseti. Þá að þessum svokölluðu endurheimtum úr búi gamla Landsbankans sem er annar áhættuþáttur. Á bls. 4 í nefndaráliti meiri hlutans er vikið að áhættunni af endurheimtunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Áætlanir Landsbankans gera enn fremur ráð fyrir að alls hafi innheimst sem svarar til um helmingi endurheimtuvirðis eigna bankans fyrir árslok 2013, en þá yrði meginhluti óinnleystra eigna bankans fólginn í skuldabréfi og viðbótarskuldabréfi sem gefið yrði út af nýja Landsbankanum.

Í kynningu Landsbanka Íslands hf. á áætluðu endurheimtuvirði eignasafns bankans kom fram að áhætta á endurheimtuvirði safnsins færi sífellt minnkandi eftir því sem endurheimtuvinnunni miðaði áfram. Bent var á að bankinn færi nú með fulla stjórn allra eigna, samningar við NBI hf. væru í höfn og greiðslur fyrir yfirfærðar eignir til NBI væru umsamdar. Þá væri reiðufé sífellt stærri hluti eignasafnsins og þáttur þess í hlutfalli af heildareignum mun stærri í árslok en áætlanir í ársbyrjun gerðu ráð fyrir. Með hliðsjón af framangreindu færi öryggi mats á áætluðum endurheimtum, sem ætíð væri varfærið, sífellt vaxandi og þáttur eigna með ótryggt endurheimtuvirði sífellt minnkandi.“

Frú forseti. Það var afskaplega mikilvægt að fá á fund fjárlaganefndar fulltrúa frá slitastjórn gamla Landsbankans sem fóru yfir þessi atriði á löngum fundi, fóru yfir hið svokallaða eignasafn Landsbankans. Þar kom fram mjög sannfærandi yfirlit yfir að endurheimturnar færu síhækkandi og þar af leiðandi væri áhættan af þessum kafla málsins óveruleg. Sá fundur sem fjárlaganefnd átti með þeim aðilum sem ég gat um var að mörgu leyti úrslitafundur í þessari atrennu fjárlaganefndar um málið og fyllti, að ég tel, mjög marga nefndarmenn sannfæringu fyrir því að áhættan hvað þetta varðar væri óveruleg.

Vík ég þá að þeim þætti málsins sem félagar í samtökunum Indefence gagnrýndu mjög á fundum fjárlaganefndar en það var ákvæði sem á stundum hefur verið kennt við Ragnar H. Hall. Menn telja mjög mikilvægt að það sé óumdeilt í samningnum, öllu heldur túlkun á samningnum. Á fund fjárlaganefndar komu, auk Ragnars H. Halls, lögmenn úr samninganefndinni og umgetnir félagar í Indefence og þessari óvissu var eytt, þar á meðal af Ragnari H. Hall sjálfum, og er mjög mikilvægt að vitna í þau samtöl. Þarna takast á annars vegar svokallað jafnstöðuákvæði, eða pari passu á lögfræðimáli, eða forgangskrafa í málið, og menn deildi á um það hvort þetta atriði ætti að vera skrifað inn í samninginn, þ.e. að forgangskrafan væri augljós, og væri á ensku svokallað Super Priority, og hefði þar með einhvers konar ofurforgang. En þetta er í íslenskri lagaframkvæmd ekki lagaregla heldur vitnað þar til svokallaðra réttarreglna sem byggjast á hefðum og fordæmum og skilningi. Bæði lögmenn samninganefndarinnar og Ragnar H. Hall töldu að það væri ótvíræður skilningur að með því að vitna í lög í samningnum væri jafnframt vitnað í réttarhefðir og þar með væri óvissan um þetta atriði málsins úr sögunni. Mjög brýnt er að hafa þetta á hreinu og reyndar lögðu samningamenn Íslands áherslu á að þingmenn hefðu orð á þessu í ræðu á Alþingi um málið.

Hver er þá niðurstaðan af þessu máli? Niðurstaðan er að nýr samningur er að mati langflestra sérfræðinga vel innan áhættumarka. Reyndar er það svo að samningamenn höfðu á orði, jafnvel Lárus H. Blöndal sem skipaður var í samninganefndina af hálfu stjórnarandstöðunnar, að ekki einasta væru þeir sjálfir ánægðir með samninginn heldur hefði sú ánægja aukist mjög eftir að álit manna á samningnum, svo sem greiningaraðilar sem vitnað er til, lá fyrir. Það er athyglisvert að heyra það úr þeim ranni.

Mun ég nú víkja aðeins að sýn Lees Buchheits aðalsamningamanns á nýjan samning en hann telur hann vera þann besta sem fáanlegur er. Hann taldi mjög mikilvægt að Íslendingar væru ekki að risikera þessum samningi, óvissan úti í Evrópu væri mikil, bæði stjórnmálaleg og efnahagsleg, og frestun á samningi yki áhættuna fyrir Íslands hönd. Hann gat þess sérstaklega, aðalsamningamaður Íslands, Lee Buchheit, að þjóðaratkvæðagreiðsla um þennan nýja samning væri honum ekki að skapi, því færi fjarri, enda byggðist hún miklu fremur á reiði og hefnd en upplýsingum og yfirvegun og þar með dómgreind. Þetta voru orð Lees Buchheits á fundum með fjárlaganefnd, ekki beint eftir höfð heldur efnislega og ber að hafa þetta í huga við umfjöllun um nýjan samning.

Frú forseti. Þessi nýi samningur snýst um orðspor Íslands, um það hvort við viljum horfa til útlanda og geta byggt íslenskt samfélag upp að nýju. Þessi samningur er betri en sá sem lá fyrir á síðasta ári, um það er varla deilt. Greiningaraðilar tala um að samningurinn í milljörðum talið gæti verið betri sem nemur á bilinu 115–121 milljarði. Þar verður vissulega að hafa í huga þá töf sem varð á málinu sem meta má til fjár en aðalatriði málsins, að mati þess sem hér stendur, er að allir málsmetandi aðilar sem hafa komið að þessu máli telja að samningur sé mikilvægari en dómstólaleiðin og að það muni flýta fyrir endurreisn Íslands fremur en að tefja málið. Vitna ég þar ekki síst til stóru aðilanna á vinnumarkaði, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem báðir höfðu á orði að betur færi á því að ljúka málinu í sátt, hagstæðara væri að semja en taka áhættuna af dómsmáli, þó reyndar án þess að viðurkenna greiðsluskyldu eins og Samtök atvinnulífsins komust að orði. Þarna eru tveir stærstu aðilar á vinnumarkaði sammála um sýn sína á Icesave-málið og er ágætt að hafa það til hliðsjónar við afgreiðslu þessa máls.

Nokkuð hefur verið rætt um það hvort stjórnarliðar, sem flestir hverjir samþykktu gamla Icesave-samninginn, ættu að skammast sín. Það má vel vera að menn eigi að skammast sín oftar en þeir gera. Í ágætu yfirliti og áliti minni hluta Sjálfstæðisflokksins, sem nú liggur fyrir, segir á bls. 11, með leyfi forseta:

„Án þjóðaratkvæðagreiðslunnar í upphafi árs 2010 sætum við Íslendingar nú uppi með óviðráðanlega skuldastöðu sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var tilbúin til að leggja á þjóðina. Er það eftir öðru sem frá ríkisstjórninni kemur. Það er í sjálfu sér óskiljanlegt af hverju þeir sem samþykktu samninginn hafa ekki beðist afsökunar á því hvernig staðið var að málum. Skömm þeirra er mikil og ævarandi.“

Nú er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki á móti þeim samningi sem hann gagnrýnir í þessum orðum, hann sat hjá. En vissulega getur sá sem hér stendur beðist afsökunar á því að hafa ekki fyrr krafist þess og óskað eftir því að meiri samstaða væri í málinu, að flokkar færu fram í sameiningu til lausnar þess. Það hefði ef til vill mátt grípa til þeirrar aðferðar miklu fyrr og ef til vill voru það verstu mistökin í upphafi að leiða málið fram í pólitík en taka ekki á því sem eðlilegum samningi í viðskiptalegu tilliti. Pólitíkin var ef til vill of mikil í málinu frá upphafi.

Þessi samningur liggur nú fyrir. Umsagnir greiningaraðila liggja fyrir. Nú er það þingmanna að meta áhættuna af þessum samningi. Er hún of mikil fyrir þjóðina eða er hún viðunandi? Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að hún sé viðunandi. Allir þeir sérfræðingar sem komið hafa fyrir nefndina eru þeirrar skoðunar, þar á meðal Seðlabankinn, greiningarfyrirtækin, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og fleiri aðilar. En mest er um vert að þverpólitísk samninganefnd, sem lagði gríðarlega vinnu í þetta mál og ber að þakka fyrir, er samstiga í málinu í öllum meginatriðum nema þegar kemur að dómstólaleiðinni og er það út af fyrir sig merkilegt að þessi breiða nefnd skuli vera sammála um málið í svo stórum og veigamiklum atriðum.

Að lokum, frú forseti, vill sá sem hér stendur þakka fjöldamörgum aðilum fyrir aðkomu að þessu máli, ekki síst stjórnarandstöðunni sem hefur unnið mikið og gott verk og veitt stjórnarliðum málefnalega og góða andstöðu. Ég vil líka nota tækifærið til að þakka Indefence-hópnum fyrir aðkomu hans að málinu. Án þeirrar aðkomu hefði málið ekki fengið viðeigandi málefnalega meðferð. Ég vil einnig þakka starfsmönnum Alþingis og starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir gott og óeigingjarnt starf á síðustu metrum málsins og reyndar allt frá upphafi. Samþykkt þessa samnings mun að mati þess sem hér stendur tryggja að enduruppbygging Íslands fer af stað á fullu.