139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:43]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef vitnað í greiningaraðila IFS og GAMMA, tvö fyrirtæki sem komu fyrir fjárlaganefnd og mátu muninn á þessum tveimur samningum. Munurinn á núvirði er samkvæmt þeim, ég er ekkert að rengja þær tölur, 115–121 milljarður. Það er álit þessara óháðu aðila og mér finnst þægilegra að vitna í óháða aðila en þá sem hafa afgerandi afstöðu í málinu.

Áhættan af gamla samningnum var e.t.v. meiri en alltaf lá fyrir það mat að endurheimtur í búið væru varlega áætlaðar. Menn voru strax farnir að tala um meiri endurheimtur en 75% sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu.