139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skilanefnd og slitastjórn Landsbankans birta stöðuna á þrotabúinu og eignarvirði þrotabúsins á hverjum tíma sem þeir fjalla um það. Þeir uppfæra það miðað við það sem gerist. Ég er ekki sammála hv. þingmanni að menn hafi vitað að eitthvað meira mundi gerast. Þannig vinna ekki skilanefndin og slitastjórnin.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um eitt sem hann sagði, mér fannst hann gera mikið úr því í ræðu sinni, þ.e. að þegar búið væri að samþykkja samningana færi hér allt á fulla ferð. Mín skoðun er ekki sú að það muni verða, enda hefur það komið fram á fundum fjárlaganefndar að menn hafa sagt, m.a.s. þeir sem héldu því fram að þetta mundi standa uppbyggingunni fyrir þrifum, að þetta hafi verið ofmat af okkar hálfu. Það er ekki eingöngu þetta, það er geta atvinnulífsins og heimilanna til þess að fara af stað.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann geti verið sammála mér um að til þess að atvinnulífið og heimilin komist af stað þurfi að leiðrétta skuldavanda heimila og fyrirtækja og bregðast við auknum fjárlagahalla upp á 26 milljarða árið 2011. Ég tel mikilvægt að (Forseti hringir.) hv. stjórnarþingmenn geri sér grein fyrir því að það verður að snúa (Forseti hringir.) af braut í þessari efnahagsstjórn.