139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:47]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er fylgst með þeirri umræðu sem fer fram á þinginu í dag af þeirri ástæðu að við erum að ræða um mikilvægt hagsmunamál fyrir alla íslensku þjóðina. Þeir sem hafa ráðið för fram til þessa og stýrt viðræðum við Breta og Hollendinga og í tvígang leitt fram samningsniðurstöðu með þeim hafa haldið svo hrapallega á málinu fyrir íslensku þjóðina, hefur mistekist svo hræðilega að gæta íslenskra hagsmuna að traust til þingsins til þess að ljúka málinu hefur beðið verulegan skaða. Frá því að málinu var lokið hér í lok árs 2009 hefur margt gerst. Þá var tekist mjög harkalega á í þingsal og stjórnarmeirihlutinn náði sínu fram. Það er óþarfi að rekja alla þá sögu sem málið hefur og tekur mest yfir árið 2009, frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum, en í öllum samanburði við þá niðurstöðu sem þar var verið að ræða um er algjört grundvallaratriði að menn horfi til þess hvernig málið blasti við þinginu á þeim tíma þegar þingið tók ákvörðun.

Um það er fjallað í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar, bls. 4, þar sem samanburðurinn er gerður á þessum einu og réttu forsendum. Þar kemur fram að stjórnarmeirihlutinn vildi í lok árs 2009 taka áhættu vegna óvissunnar um endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans sem þá var mun meiri en hún er í dag og allrar annarrar áhættu sem er að finna í þessu máli og fallast á vaxtagreiðslur sem voru útlistaðar í málinu sjálfu og birtast í þessari töflu. Þar kemur fram að heildaráætlaðar greiðslur, eins og það blasti við þinginu í lok árs 2009, voru 489 milljarðar. Nú koma þingmenn stjórnarflokkanna og taka þátt í þessari umræðu og segja: Munurinn er ekki svona mikill, munurinn er mun minni. Munurinn, eins og segir hér í frumvarpinu, nálgast það að vera 170 milljarðar.

Hvers vegna er þetta haf á milli talnanna sem ég nefni hér? Jú, það er vegna þess að þingmennirnir sem kjósa að velja þennan samanburð nýta sér allar þær breyttu forsendur sem hafa orðið í millitíðinni. Eini rétti samanburðurinn í þessu efni er að horfa til þess hvernig málið blasti við þinginu á sínum tíma. Þess vegna segi ég: Það er himinn og haf á milli þeirrar niðurstöðu sem við ræðum hér og þeirrar sem stjórnarmeirihlutinn vildi lögleiða í lok árs 2009, en þjóðin reis upp, lét ekki bjóða sér óréttlætið sem ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar, hæstv. fjármálaráðherra, og Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, bauð henni.

Það var fyrst þegar þessi staðreynd blasti við ríkisstjórninni að leitað var eftir samstöðu við stjórnarandstöðuflokkana, reyndar hafði það gerst einu sinni áður, það var þegar ríkisstjórninni varð ljóst að hún hafði tapað meiri hluta fyrir upphaflega samningnum. Þegar flokkarnir komu saman í upphafi árs 2010, fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, var þetta orðið forustumönnum ríkisstjórnarinnar ljóst. Þótt ótrúlegt megi virðast þurfti að ræða á fjölmörgum fundum um hvað við gætum orðið sammála. Afstaða okkar sjálfstæðismanna strax á þessu stigi málsins var sú að við þyrftum að leita samninga á gjörbreyttum forsendum, algerlega nýjum grunni. Ekki voru undirtektir við það af hálfu hæstv. forsætisráðherra í upphafi janúarmánaðar 2010 en eftir því sem leið nær þjóðaratkvæðagreiðslunni og eftir að flokkarnir höfðu komið sér saman um nýja samninganefnd fór hljóðið aðeins að breytast í forustu ríkisstjórnarinnar. Þá varð henni ljóst að þjóðin ætlaði ekki að sætta sig við óréttlætið, þjóðin var ekki tilbúin til að fella sig við áhættu sem stjórnarmeirihlutinn hafði sjálfur sagt að gæti numið 500 milljörðum og það var farið að hlusta eftir sjónarmiðum stjórnarandstöðuflokkanna um að það þyrfti að leita samninga á gjörbreyttum forsendum. Áður en til þjóðaratkvæðagreiðslunnar kom var þannig látið á það reyna í viðræðum við Breta og Hollendinga hvort það væri grundvöllur til þess að ljúka deilunni með algerlega nýjum hætti þar sem lánasamningarnir yrðu lagðir til hliðar og stórkostlega dregið úr áhættu á fjárhagslegum skuldbindingum.

Viðbrögð þessara tveggja ríkja á þeim tíma voru að okkar áliti óásættanleg en þrátt fyrir það var þrýstingur á stjórnarandstöðuflokkana um að fallast á hugmyndir Breta og Hollendinga. Það varð ekki. Forsætisráðherra hefur margoft komið upp í ræðustól Alþingis og tekið fram að það hefði verið hægt að ganga frá málinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún hefur aldrei þurft að sýna nein gögn, aldrei þurft að sýna neina samninga, ekkert tilboð, ekkert sem er haldfast og getur rennt stoðum undir þessa fullyrðingu vegna þess að henni hefur fylgt sú fullyrðing að sá samningur sé jafngóður og sá sem hér er á borðinu. Það er rangt. Stjórnarandstöðuflokkarnir stöðvuðu hugmyndir um að ljúka málinu tveimur dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Og áfram var haldið, viðræðurnar féllu niður vegna þess að það voru kosningar í ríkjunum tveimur og þráðurinn var síðan að nýju tekinn upp þegar þau mál höfðu skýrst. Ríkisstjórnin hafði næst áhyggjur af því að hún þyrfti að svara Eftirlitsstofnun EFTA. Svarfresturinn gagnvart þeim var að renna út í byrjun september 2010 og þess vegna var lagður þrýstingur á stjórnarandstöðuflokkana í annað sinn að fallast þá á hugmyndir Breta og Hollendinga eins og þær höfðu birst okkur í viðræðunum. Því var aftur hafnað.

Og áfram héldu viðræðurnar og áfram hélt málið að þróast í betri átt þar til að þessari lausn var komið í byrjun desembermánaðar eða um mánaðamótin nóvember/desember. Hana hefur ríkisstjórnin borið upp á þinginu á eigin ábyrgð og síðan þá höfum við verið að gaumgæfa kosti og galla þess að ljúka málinu á þessum forsendum, meta áhættuna og leita umsagna.

Mér finnst ástæða til að rifja upp þessa atburðarás vegna þess að í öllum fyrri umræðum um þetta mál hér hafa stjórnarliðar keppst við að draga fram minnisblöð og jafnvel óundirrituð skjöl frá fyrstu dögum þessa máls til vitnis um að það hafi verið ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem hafi á fyrstu stigum þessa máls verið komnir með skuldbindingu eða málið á einhvern annan hátt út í skurð. Þessu höfum við andmælt allan tímann og sagan hefur sýnt það sem við höfum haldið fram, að með því að standa á rétti okkar væri hægt að leiða fram niðurstöðu sem væri samboðin fullvalda þjóð. Um það hefur þetta mál snúist. Og það er hræðilegt að þannig hafi verið haldið á þessu máli hér í þau tvö ár sem ríkisstjórnin hefur verið við völd að það hafi verið grafið svona stórkostlega undan trausti til Alþingis til að ljúka málum á borð við það sem við erum með. Það skrifast á reikning ríkisstjórnarinnar.

Eftir að þessi niðurstaða er komin fram tel ég okkur hafa skyldur til þess að vega og meta hana og bera saman þá kosti að ganga enn og aftur frá samningaborðinu við Breta og Hollendinga og láta reyna á réttarstöðu okkar. Það þarf að vega og meta þann kost á móti því að ganga frá málinu. Mér finnst mjög ólíklegt, ég segi það alveg eins og er, að það væri hægt að hefja nýja viðræðulotu við ríkin tvö, enda var það mat samningamanna okkar að hér lægi fyrir samningur sem endurspeglaði þá eftirgjöf viðmælenda okkar sem mögulegt væri að ná fram í frjálsum samningum. Og ég segi þetta vegna þess að ég tel að í raun og veru stöndum við frammi fyrir þeim valkosti að standa fast á rétti okkar og ég finn það í þjóðfélaginu að það eru margir sem kalla eftir því, eða ganga frá málinu eins og það hér liggur fyrir. Þann kost hef ég gaumgæft mjög vandlega, yfir hann hefur verið farið af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd og hann hefur verið margræddur í margar vikur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Mín niðurstaða er sú að það sé skynsamlegra að ganga frá málinu en að láta reyna á þann rétt. Það er mín niðurstaða. Með því er ég ekki að varpa fyrir borð hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Í því liggur engin eftirgjöf. (VigH: Nú líður okkur miklu betur.) (GBS: Nú?) Í því liggur engin eftirgjöf á þeirri stöðu sem við höfum í þessu máli, þvert á móti höfum við á grundvelli þeirrar sterku lagalegu stöðu sem við höfum haft í þessu máli náð fram þeirri niðurstöðu sem hér er. (Gripið fram í: Rétt.) Það er engin tilviljun að Bretar og Hollendingar hafa slegið u.þ.b. 200 milljarða af vaxtakröfum sínum. Það er engin tilviljun að menn hafa kollvarpað fyrri samningum í öllum efnislegum atriðum. Það er engin tilviljun, það er vegna þess að í þessum samningi komu menn í fyrsta sinn fram af einhverri reisn, tefldu fram sínum ýtrustu rökum, byggðu á sterkri stöðu en héldu áfram að lýsa vilja til að leiða fram vinsamlega lausn.

Mig langar líka til að biðja menn um að huga aðeins að því í þessu sambandi, við höfum ekki bara verið að ræða við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni, við höfum verið að ræða við Norðurlöndin — og hvað höfum við sagt við Norðurlöndin sem hafa veitt okkur fjárhagslega aðstoð? Við höfum sagt að við vildum leiða fram lausn. Hvað höfum við sagt við Evrópusambandsríkin, önnur, sem leitað hefur verið til með fjárhagslega aðstoð sem við höfum verið í þörf fyrir? Við höfum sagt þeim mjög skýrt að við vildum leiða fram lausn í málinu. Sama hefur ítrekað verið sagt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þótt ég ætli jafnframt að nota þetta tækifæri til að lýsa gríðarlegum vonbrigðum með framgöngu flestra ríkja sem þar eiga aðild á fyrri stigum þessa máls. Það hefur þó komið í ljós að allar hrakspár um að við fengjum ekki endurnýjun og endurskoðun áætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með þetta mál óleyst hafa reynst rangar. Málið hefur snúist okkur í vil eftir því sem því hefur undið fram. Það er sá grundvallarmunur á þessu samkomulagi og fyrri niðurstöðu í málinu að þau ríki sem hér koma að deila með sér byrðinni. Það þarf ekki annað en skoða t.d. vexti sem þau ríki sem lent hafa í vandræðum undanfarna mánuði þurfa að sætta sig við til að sjá þann gríðarlega mun sem er á því og því sem hér er um að ræða. Þannig er það með þennan samning að hann er bæði að efni til og formi gjörbreytt niðurstaða borið saman við fyrri samninga.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem skipa mjög miklu í þessu sambandi. Ég er búinn að nefna vextina. Bretar og Hollendingar taka á sig milljarða vaxtakostnað, tugmilljarða vaxtakostnað með því að gefa vaxtaleysistímabilið fram eftir árinu 2009. Allt í allt nemur vaxtalækkunin u.þ.b. 200 milljörðum þegar hinir lægri vextir eru teknir með í reikninginn.

Mikið hefur verið rætt um Ragnars H. Halls-ákvæðið. Það voru hörmuleg mistök að samþykkja það í upphaflegum samningi að umframkröfur Breta og Hollendinga, þ.e. kröfur þeirra umfram lágmarkstrygginguna, ættu að standa jafnfætis lágmarksinnstæðunni, hinni lágmarkstryggðu innstæðu, við úthlutun úr búinu. Þannig hefur málstaður Ragnars H. Halls, sá málflutningur sem hann kom fram með, náðst í gegn í þessu nýja samkomulagi.

Sama gildir um ákvæði eins og þau sem sneru að neyðarlögunum, gildi þeirra. Sama gildir um ákvæði um vanefndaúrræðið. Sama gildir um afborganir, það eru hagstæðari ákvæði í þessum samningi sem snúa að afborgunum og öllum öðrum efnislegum atriðum sem hér hafa verið rakin og ég ætla ekki að nota tíma minn í að fara nánar yfir í neinum smáatriðum.

Þegar öllu er á botninn hvolft hefur aðeins ein spurning snúið að okkur þingmönnum frá því að þetta mál og þessi deila upphófst haustið 2008. Hvaða niðurstaða í þessu máli er viðunandi? Eins ótrúlega og það hlýtur að hljóma er það þannig að fram eftir árinu 2009, fram til áramótanna 2009/2010, var enginn einhugur um það í þinginu. Það er hræðilega dapurlegt fyrir Alþingi þegar sótt er að íslenskum hagsmunum að stjórnmálaflokkarnir geti ekki náð saman um hvernig eigi að taka varðstöðu fyrir hönd Íslendinga. Eitt það dapurlegasta sem gerst hefur í þessu máli er hvernig gefið var eftir vegna þvingana og afarkosta viðsemjenda okkar. Það skrifast á reikning núverandi ríkisstjórnar og það blasir við öllum sem sjá þetta samkomulag að öll gífuryrðin um það sem mundi gerast ef ekki yrði fallist á þeirra samkomulag, nú eða ef við mundum hafa málið óleyst, hafa reynst ósönn. Það sama gildir um þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hvöttu fólk beinlínis til þess að hunsa hana. Ef ég veit rétt mætti hvorugt þeirra til að taka þátt í því að verja íslenska hagsmuni þar. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Fulltrúi …) Við höfum aldrei, aldrei nokkurn tímann, fengið afsökunarbeiðni frá forustu ríkisstjórnarinnar og ekki einu sinni eftir að þetta liggur fyrir sem sýnir fram á það, svart á hvítu, hversu mikil mistök hafa verið gerð. Það ætti ekki einu sinni að þurfa að ræða um þetta út frá einhverjum tölulegum staðreyndum eða efnislegum ákvæðum í lögfræðilegum samningum heldur er það einfaldlega svo að þegar ein ríkisstjórn gengur þannig fram að 98 komma eitthvað prósentum kjósenda mislíkar ætti hún auðvitað að fara frá. Það hlýtur að blasa við hverjum sem á þetta hlustar. (Utanrrh.: Ekki við mér.) Ekki við mér, segir hæstv. utanríkisráðherra, en hann er auðvitað líka þeirrar skoðunar að engin mistök hafi verið gerð sem biðjast þurfi afsökunar á í því klúðursmáli sem hér hefur verið mest til umfjöllunar síðustu dagana.

Mig langar í lokin til að taka fram að það er ekki á nokkurn hátt neitt gleðiefni að taka þátt í afgreiðslu þessa máls með því að styðja þennan samning hér. Með því erum við Íslendingar að takast á herðar skuldbindingar sem eiga rætur sínar að rekja til reksturs einkafyrirtækis. Mér finnst það hins vegar vera skylda mín að leggja ískalt hagsmunamat á það fyrir hönd þeirra sem ég starfa hér á Alþingi fyrir hvort það sé skynsamlegt eða ekki. Þeir sem halda því fram að með því að byggja ákvörðun í þessu máli á hagsmunamati og fara fram á það að ákvörðun í þessu máli eigi að byggja á prinsippinu eru gjarnan óviljugir til þess að ræða um hættuna sem því fylgir að láta reyna á sinn ýtrasta rétt vegna þess að sú hætta er vissulega til staðar. Í lögfræðiálitinu sem fjárlaganefnd fékk kemur berlega í ljós að okkar færustu lögfræðingar eru ekki einu sinni sammála um það hvernig því máli kynni að ljúka. Ég get sagt fyrir mína parta að mér finnst við hafa lagalega sterka stöðu en það er hins vegar staðreynd að við fengum álit frá ESA á síðasta ári sem gengur þvert á mína sannfæringu í lögfræðilegu tilliti og ég tel einfaldlega að það sé alls ekki á vísan að róa með því að fá úrlausn dómstóla í Evrópu vegna þess ágreinings sem þar er um að ræða.

Þetta er ekki þannig að verið sé að taka á sig skuldbindingu og hinn valkosturinn sé sá að labba frá málinu án þess að þurfa að taka neitt á sig, áhyggjulaust. Það er ekki þannig. Ég hef frá upphafi þessa máls talað fyrir því að við ættum að leiða fram lausn í því, ég stend með þeirri (Forseti hringir.) skoðun minni eins og hún birtist haustið 2008 og ég tel að hér sé komin niðurstaða (Forseti hringir.) sem við verðum að sætta okkur við, sé skynsamlegt að ljúka á þinginu og við gerðum rétt í því að gefa íslensku þjóðinni í framhaldinu von um að eitthvað betra taki við.