139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég benti á það í svari mínu að þegar menn spyrja sig hversu miklu sé verjandi til að verja hagsmuni sína þurfa þeir auðvitað að horfa á hvað er í hættu. Í þessu máli er ákveðin hætta á því að menn tapi dómsmáli fyrir EFTA-dómstólnum vegna þeirrar mismununar sem menn halda fram að hafi átt sér stað gagnvart erlendum innstæðueigendum. Hvaða upphæðir eru þar undir? Það gætu verið 200 milljarðar. Það er erfitt að segja til um hvaða vexti menn sætu uppi með þegar slík dómsniðurstaða lægi fyrir en það eru slíkar samanburðartölur sem menn verða að horfa til. Er ásættanlegt að ganga frá málinu með nokkurra tuga milljarða kostnaði til að losna við hættuna á einhverju slíku? Þegar allt er tekið með í reikninginn tel ég svo vera. Ég hef hins vegar mótmælt því að taka á mig mörg hundruð milljarða áhættu til að losna við hættuna á slíkum dómi. Það er heimskulegt. Það var afstaða stjórnarflokkanna á fyrri stigum þessa máls, (Forseti hringir.) það hefur aldrei verið afstaða mín. Ég vek athygli á því að þeir þættir sem geta breyst í þessu máli (Forseti hringir.) hafa verið að breytast á jákvæðan hátt og geri þeir það áfram mun kostnaðurinn (Forseti hringir.) af þessu máli vera mun minni en við höfum rætt hér.