139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að hv. þm. Bjarni Benediktsson færi að beita þeim hræðsluáróðri sem ríkisstjórnin hefur beitt í málinu. Nú er formaður Sjálfstæðisflokksins skyndilega orðinn hræddur við dómstóla. Hann sagði í ræðu sinni að hann teldi þessa niðurstöðu vera á þann hátt sem væri samboðinn fullvalda þjóð.

Frú forseti. Fullvalda þjóð óttast ekki dómstóla. Hér er verið að leggja til að ríkisvæða einkaskuldir, það er verið að ríkisvæða skuldir Landsbankans gamla. Við hvað er hv. þingmaður hræddur? Lögfræðiálit sem liggja hér fyrir þingmönnum telja að ef við mundum láta þetta mál hjá líða yrði málið flutt fyrir íslenskum dómstólum. Treystir hv. þingmaður ekki lengur íslenskum dómstólum eða hvað er verið að fara hér í þessari ræðu?