139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki þurft að reiða mig á stuðning Framsóknarflokksins í störfum mínum á þinginu. Mér finnst þessi málflutningur vera fullkomlega ótrúverðugur, svo ég segi það alveg eins og er. Þeir sem hafa aftur og aftur hvatt til þess að við, þingflokkar á Alþingi, ættum sameiginlega í viðræðum við Breta og Hollendinga tala nú hér eins og aldrei komi annað til greina í málinu en að fara með málið fyrir dómstóla. Ég spyr: Hvað eru menn að fara? Hver er kominn í hring? Hvernig geta menn komið hingað upp og borið það upp á mig, sem hef aftur og aftur lamið til baka allar fullyrðingar stjórnarflokkanna um að við ættum enga aðra kosti en þá sem þeir hafa á fyrri stigum borið fram á þinginu, að ég sé ekki að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar? (VigH: Hvað með þjóðaratkvæðagreiðsluna?) Ég sé að hv. þingmaður hefur engan áhuga á að ræða þann mikla árangur sem hefur náðst með því að standa gegn málinu á fyrri stigum, með því að þjóðin hafnaði afarkostunum, (Forseti hringir.) með því að þingflokkarnir sameiginlega leiddu Bretum og Hollendingum það fyrir sjónir að við ætluðum ekki (Forseti hringir.) að láta valta yfir okkur.