139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að við sjálfstæðismenn höfum ætlað að gefa eftir fyrir áramót 2009. Það er bara rangt. Við greiddum allir sem einn atkvæði gegn samningnum sem þá var til umræðu.

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður að Framsóknarflokkurinn hefði alltaf staðið fyrir því að ná betri samningi. Samt koma framsóknarmenn hingað hver á fætur öðrum og segja: Ekki semja. Förum með málið fyrir dómstóla, einungis þannig getum við staðið á rétti okkar. Ja, hvort er það með Framsóknarflokkinn, vildi hann fá samning eða vildi hann fara fyrir dómstóla? Hvort er það? (GBS: Svaraðu spurningunni.) Hvort er það? (GBS: Svara þú spurningunni.)

Sú áhætta sem hv. þingmaður kallar eftir að ég ræði um er útlistuð í nefndaráliti fjárlaganefndarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem liggur hér frammi. Það eru margir áhættuþættir, einn þeirra er sá sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. gjaldeyrishöftin. Ég óttast það, því miður, að gjaldeyrishöftin verði hér enn um sinn þó að ég vilji losna við þau sem allra fyrst (Forseti hringir.) og ég útiloka ekki að með því að ljúka þessari deilu á grundvelli þess samkomulags sem hér liggur frammi (Forseti hringir.) verði hægt að aflétta gjaldeyrishöftunum fyrr. (VigH: Rangt.) (Forseti hringir.) Það er alls ekki útilokað en um þetta ætla ég ekkert að fullyrða. Það kemur í ljós í fyllingu tímans, m.a. (Forseti hringir.) fer það eftir því hvernig matsfyrirtæki fjalla um (Forseti hringir.) stöðu Íslendinga. (Gripið fram í.)