139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin og fagna því að hann tekur undir það að betra hefði verið að sýna samstöðu og við skulum öll líta í eigin barm í því efni.

Það sem ég hef verulegar áhyggjur af líka — og ég fagna því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér að hagvaxtarspárnar væru að batna og tek undir að það er mjög ánægjulegt — ég hef verulegar áhyggjur af því að á árinu 2011, sem er nú hafið, þurfum við að greiða 26,1 milljarð til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Og allir eða a.m.k. flestir hér deila ekki um mikilvægi þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum til þess að við þurfum ekki að borga þessa vexti því að ekki verður neitt úr þeim. Þess vegna er mjög mikilvægt að atvinnulífið komist í gang aftur og geti farið að skapa störf og eins að við leysum úr skuldavanda heimilanna.

Því má heldur ekki gleyma að við þurfum líka að skipta núna 45 milljörðum yfir í pund og evrur til að greiða skuldbindinguna, það er bæði innstæðutryggingarsjóðurinn, TIF, sem er með 20 milljarða í íslenskum krónum, og til viðbótar það sem við þurfum að greiða. Það er töluvert há tala af gjaldeyrisvarasjóði Íslands. Þess vegna er það algjört grundvallaratriði að við komum hjólum atvinnulífsins í gang aftur og förum að skapa störf og vinnu og hagvöxt.

Þá vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Þegar við ræðum hér einstök mál þar sem okkur greinir mjög á um hvað eigi að gera, væri þá ekki gott fyrir þjóðina og fyrir okkur öll að menn létu kannski líka allir sem einn af offorsi í þeim málum og sameinuðust um að gera það sem þarf til að ná efnahagnum og fjármálum ríkisins í það nauðsynlega horf sem þarf að vera til að við getum búið hér áfram við eðlileg kjör?