139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi gjaldeyrisyfirfærslurnar man ég ekki betur en að tryggingarsjóðurinn eigi talsvert af eignum sínum í erlendri mynt þannig að ég held að það komi nú til. Ég man bara ekki þessar tölur, ég er ekki með þær í kollinum, en fyrir einhverjum mánuðum síðan fór ég yfir þetta og ég held að minni mitt svíki ekki í þeim efnum að drjúgur hluti eigna tryggingarinnstæðusjóðsins er í erlendri mynt þannig að hann getur losað þær. Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins er náttúrlega mjög sterk um þessar mundir og í bili a.m.k. þurfum við ekki að hafa í sjálfu sér neinar áhyggjur af því, m.a. vegna þess að hér er gríðarlega mikill gjaldeyrir í landinu í eigu fjármálastofnana í slitameðferð og ekki komið að útgreiðslum hjá þeim, fyrir nú utan þann gjaldeyrisforða sem við höfum byggt upp og/eða tekið að láni. Ég hef í bili ekki áhyggjur af því.

Það er auðvitað alveg ljóst að það tekur í að færa greiðslur fram eins og í raun og veru má segja að sé gert með samtímagreiðslum vaxta, en það launar sig vel síðar. Og þegar við erum komin í færi til þess held ég að það sé skynsamlegt að gera það eins og þetta samkomulag gerir ráð fyrir.

Varðandi svo samstöðu um að fara að einhenda sér í uppbyggingarstarfið — því meira því betra, segi ég að sjálfsögðu. Ég lít nú svo á að menn séu alltaf af góðum hug að reyna að gera landi sínu gagn þó að við séum ekki alltaf sammála um leiðirnar. Ég hef fullan hug á því og hef verið að reyna að boða það fagnaðarerindi um landið að árið 2011 eigi að vera ár hins mikla viðsnúnings og ár uppbyggingar. Ég tel að það séu góðar innstæður fyrir því og undirliggjandi ýmsar vísbendingar um að það geti orðið meiri kraftur í hagkerfinu en við höfum jafnvel reiknað með. Ég bendi t.d. hv. þingmanni á að skoða tölur um þróun innflutnings á síðari helmingi ársins þar sem sú athyglisverða staðreynd blasir við að það er einkum (Forseti hringir.) innflutningur á hráefnum, rekstrarvörum og tækjum og tólum til (Forseti hringir.) framleiðslustarfsemi sem hefur aukist.