139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil að þetta sé viðkvæmt mál hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. En það á ekki að birtast í því að hv. þingmenn komi hvað eftir annað hingað upp og skáldi bara eitthvað til að svara.

Ég sagði það í síðasta andsvari að Lee Buchheit, sem mikið er vitnað til hér, hefði einmitt talað í samræmi við það sem hv. þingmaður nefndi og það var það sem lagt var upp með, að nýta eignir þrotabúsins.

Hvað varðar vextina ef málið tapaðist. Af hverju ættu Íslendingar að greiða 5,55% vexti? Snýst málið ekki um að bæta mönnum það tjón sem þeir verða fyrir ef menn tapa dómsmáli? Það tjón sem Bretar urðu fyrir verður þeim bætt að fullu samkvæmt yfirlýsingum ráðherra þessara landa með því tilboði sem lagt hefur verið fram hér. Það er verið að borga þeim vexti, meira að segja smá mun milli Bretlands og Hollands vegna þess að það á að borga þá vexti sem þeir þurfa sjálfir að greiða hafandi tekið upphæðina sem þeir borguðu út að láni hafi þeir gert það. Það er því verið að bæta mönnum það tjón sem þeir urðu fyrir.

Varðandi áhættuna þá efast ég ekki um að mat skilanefndarinnar sé raunhæft eins og ástandið er núna, eins og aðstæður eru t.d. á fjármálamörkuðum. Til að mynda má vel vera að matið á Iceland-verslunarkeðjunni sé rétt, að hægt væri að fá 250 milljarða fyrir hana eða hvað það var sem menn nefndu síðast. Ég er bara að benda á að áhættufjárfesting sveiflast í verði. Þó að matið á þessum áhættufjárfestingum sé rétt núna þá breytist það mjög hratt með breyttum aðstæðum. Var það ekki einmitt það sem gerðist á Íslandi? Komu ekki upp aðstæður sem menn höfðu ekki átt von á og jafnvel eignir sem voru taldar hvað tryggastar reyndust ekki vera það? Þetta eru hins vegar eignir (Forseti hringir.) sem eru margar hverjar (Forseti hringir.) ekki mjög tryggar.