139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins ætlar greinilega að leggja sitt af mörkum til að ræna mig heilbrigðum nætursvefni. Það er alveg hárrétt hjá honum að ég er töluvert spenntur yfir því að vita um afstöðu Framsóknarflokksins í þessu máli. Nú ætla ég ekki að ganga of hart eftir því, en það er athyglisvert sem formaður Framsóknarflokksins segir eftir þessa umræðu þar sem allir helstu leikendur á þessu sviði hafa talað — hann er einn aðalleikarinn á því sviði sem þingið er — og hann hefur ekki enn komið fram með afstöðu. Það er alveg eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sem fór í dag eins og köttur í kringum heitan graut og sagði að lokum að hann mundi ekki samþykkja samninginn, en hvort hann ætlaði að greiða atkvæði gegn honum eða hvort hann ætlaði að styðja hann ef breytingartillagan sem Framsóknarflokkurinn leggur til verður samþykkt kom ekki fram. Ég get alveg beðið þangað til á morgun.

Ég held að hv. þingmaður hefði gott af því að hugsa þetta mál fram á morguninn. Ég er þeirrar skoðunar í fyrsta lagi að þessi samningur sé miklu betri en sá fyrri. Í öðru lagi á Framsóknarflokkurinn sinn skerf í því. Í þriðja lag hefði þessi niðurstaða aldrei orðið nema af því að það var samstaða. Hv. þingmaður var partur af því að þetta ferli fór af stað. Ég mundi í hans sporum miklu frekar berja mér hér nokkuð sigurreifur á brjóst og sperra mitt páfuglsstél ef ég væri hann og segja: Sjáið til, ég og minn flokkur eigum töluverðan þátt í þessu, í staðinn fyrir að tala heldur niðrandi um þennan góða samning.

Ég tek ekki afstöðu út frá því sem Lee Buchheit sagði. En það var hv. þingmaður sem nefndi hann til sögunnar, nefndi orð hans sem rök fyrir því að það ætti frekar, eins og ég skildi hv. þingmann, að fara í mál en að semja. Það var Lee Buchheit sem sagði, með leyfi forseta:

„Í mínum huga voru þetta aðstæður (Forseti hringir.) sem kölluðu á samninga en ekki dómsmál.“

Ef menn vitna í einhvern (Forseti hringir.) eiga þeir að fara í grundvallartextann eins og hv. þm. Mörður Árnason bendir alltaf (Forseti hringir.) á.