139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að úrklippa hæstv. utanríkisráðherra úr Fréttablaðinu er orðin dálítið snjáð því að hann hefur haldið mjög í þetta og viljað nota afstöðu Lees Buchheits sem útskýringu. Það er reyndar alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra vitnaði í þarna áðan, það var skoðun — og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom aðeins inn á þetta áðan — Jonna frænda, eða Lees Buchheits, að við ættum að athuga hvort ekki mætti leysa þetta með samningum. Það var skoðun allra þingmanna held ég bara. Hann sagði jafnframt að það væri ekki hægt að gefa hvað sem væri eftir í stöðunni og hann hefði haldið allt öðruvísi á málinu. En látum þetta nægja af því að reyna að rýna í orð Lees Buchheits og reynum að taka bara afstöðu til málsins sjálf.

Ég skil ekki heldur þetta áframhald á þessu gríni hæstv. utanríkisráðherra um að hann skilji ekki afstöðu Framsóknarflokksins. Hann hefði t.d. getað horft á fréttir áðan ef hann náði ekki því sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson margítrekaði, að hann væri á móti nýja tilboðinu. Ef hæstv. utanríkisráðherra náði því ekki í fyrri tilraun getur hann séð það í fréttunum þar sem þetta var matreitt fyrir hann og aðra. Þó að hæstv. utanríkisráðherra sé oft sniðugur og skemmtilegur — nú vantar mig dýralíkingu því að við erum farnir að stunda þær hér á hverju kvöldi — (Utanrrh.: Þá væri …) Hvaða dýr eru skemmtileg? Þó að hæstv. utanríkisráðherra sé oft eins og eitthvert skemmtilegt dýr á það ekki við í þessu tilviki með þessu óskiljanlega gríni hæstv. utanríkisráðherra um að hann skilji ekki afstöðu Framsóknarflokksins því að ég held hún gæti ekki verið skýrari.