139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og ekki síst fyrir að viðurkenna að hagsmunamat hans hefur þroskast mjög mikið frá því hann vildi ólmur samþykkja síðasta samning og væntanlega einnig þann sem var þar áður á ferð. Við erum sem sagt að tala um Icesave 3 núna og vissulega er þetta miklu, miklu betri samningur, um það deilir enginn. Það er alveg ljóst, um það deilir enginn.

Það var annað sem vakti athygli mína í fyrri hluta ræðu hv. þingmanns, það var sú myndlíking eða þær staðhæfingar vil ég í rauninni segja um atvinnulífið, að atvinnuleysið, hagur heimilanna og annað, muni batna mjög þegar við höfum samþykkt þennan samning. Heyrði ég þetta rétt? Er það rétt sem ég hef hér eftir hv. þingmanni að hann meti það svo að nýi Icesave-samningurinn muni verða sú bylting sem kom fram í máli hans fyrir atvinnulífið, atvinnulausa, heimilin og margt af því öðru sem var talið upp í þeirri ágætu ræðu?