139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur augljóslega ekki heyrt nægilega glögglega það sem ég sagði um þetta efni í ræðu minni. Ég legg áherslu á að mjög mikilvægur þáttur í efnahagslegri endurreisn Íslands, í því að opna okkur aðgang að alþjóðlegum lánamörkuðum og laða hingað að erlenda fjárfestingu, er að leysa þetta mál. Að leysa það er hins vegar ekki eina þrautin, ef við sækjum aftur í líkingamál ævintýranna, sem prinsinn verður að leysa til þess að vinna sigurinn. Við þurfum auðvitað að gera fjölmargt annað. Vegna þess að það að endurreisa efnahagslíf og endurreisa trúverðugleika og opna fyrir okkur alþjóðlega markaði verður ekki gert með einu kraftaverki. Það felur í sér fjölmörg erfið og krefjandi verkefni sem ég held að bæði stjórnvöldum og atvinnulífinu, mörgum fyrirtækjum, hafi miðað vel áfram með. Þar eru líka fjölmörg verkefni óunnin. Þetta er þáttur í að ná hjólum atvinnulífsins í gang en ekki nægilegt skilyrði, nauðsynlegt skilyrði en ekki nægilegt.