139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar.

Þeir sem munu borga þessa Icesave-reikninga eru fyrirtækin, fólkið, Íslendingar, það er þjóðin sem mun borga brúsann sem nú virðist vera kominn meiri hluti fyrir að taka frá gjaldþrota einkabanka og setja yfir á þjóðina. Hagur fjölskyldna, atvinnulausra og fyrirtækja þarf því að batna býsna mikið til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem meiri hluti Alþingis virðist ætla að setja á þau. Því er ágætt að fá mat, því að það hlýtur að hafa verið lagt mat á hversu miklu þetta skiptir. Mun árangurinn eða viðsnúningurinn af því að fá betri Icesave-samning verða slíkur að hann muni bæta upp það sem á að leggja á heimilin, á fjölskyldurnar, heimilin sem bankarnir eru nú að, ég leyfi mér að orða það svo, mergsjúga til að fá upp í lánasöfn sín? Nú á að bæta þessu á heimilin, fólkið. Mun nýr Icesave-samningur bæta það upp með því að liðka til fyrir öllu því sem hann á að liðka til?

Ég veit ekki betur en íslensk fyrirtæki hafi verið að fjármagna sig erlendis. Þau sem mér detta nú í hug eru Össur og Marel. Ég veit hins vegar að Evrópski fjárfestingarbankinn og slíkar stofnanir hafa þverskallast við að veita Íslendingum fyrirgreiðslu. Getur það verið vegna þess að þar eru pólitískt kjörnir eða pólitískt skipaðir fulltrúar við stjórnvölinn og lúta þar af leiðandi öðrum lögmálum en markaðurinn sem virðist ekki hafa skellt skollaeyrum við eða virðist ekki hafa lokað á Ísland?