139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum nú hina svokölluðu Icesave 3 samninga sem eru með allt öðru sniði, allt öðru formi og í rauninni allt öðru efnisinnihaldi en bæði Icesave 1 og 2 samningarnir voru.

Ég vil í upphafi máls míns geta þess sérstaklega að vinnan við þetta mál hefur verið með allt öðrum hætti en í bæði Icesave 1 og 2 samningunum þar sem glöggt má sjá það offors sem var þá og allt að því ofstæki af hálfu ríkisstjórnarflokkanna við að knýja í gegn nauðungarsamninga sem fólust í rauninni báðum þeim samningum, eins og við þekkjum öll að þjóðin síðan hafnaði og leiddi sem betur fer ríkisstjórnina á betri braut. Ég vil sérstaklega þakka fyrir góða samvinnu fjárlaganefndarmanna allra, ekki síst af hálfu formanns og varaformanns nefndarinnar sem brugðust snöfurmannlega við óskum okkar úr stjórnarandstöðunni.

Hér hefur aðeins verið rætt fyrr í dag og síðustu daga, undir liðnum fundarstjórn forseta, um rétt þingmanna og þingnefnda til að hafa aðgang að upplýsingum. Ég vil geta þess að eitt af þeim gögnum sem voru lögð fram fyrir nefndina undir trúnaði tengist trúnaðarsamtali fyrrverandi seðlabankastjóra Íslands við seðlabankastjóra Englands. Núverandi seðlabankastjóri, ásamt lögfræðingi og einum til viðbótar, lagði það fyrir nefndina þannig að þingforseti getur svo sannarlega beitt sér fyrir því að þingmenn fái upplýsingar. Þess vegna var ég að hugsa — þetta er reyndar útúrdúr frá ræðu minni — af hverju í ósköpunum viðskiptanefnd hefur ekki fengið frá Seðlabankanum þær upplýsingar sem hún þarf á að halda varðandi söluna á Sjóvá. Það hlýtur eitt yfir allar nefndir að ganga, sérstaklega þegar sama stofnun á í hlut sem er Seðlabankinn í þessu tilviki. Þetta er bara ábending, ég hefði getað komið með hana undir liðnum fundarstjórn forseta fyrr í dag en gerði það ekki.

Þetta beinir sjónum mínum að vinnubrögðum nefndarinnar sem voru góð. Það var í rauninni ekki beint þrýstingur á að klára málið en ég get þó viðurkennt það að ég hefði gjarnan viljað bíða aðeins til að fá enn skýrari línur á þá málsmeðferð sem núna er að hefjast fyrir dómstólum. Ég kem að því síðar. Ég held að við höfum engu að síður fengið nokkuð glögga mynd af þeirri málsmeðferð og því fyrirkomulagi með því að leita m.a. til lögmanna málsaðila.

Ásamt félögum mínum í fjárlaganefnd, hv. þingmönnum Ásbirni Óttarssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, skrifaði ég undir álit okkar sjálfstæðismanna sem er 2. minni hluti. Við ljúkum álitinu á því, eftir að við höfum rakið forsöguna, áhættuna og ýmislegt annað, ég kem að ýmsum þáttum hér á eftir, að leggja til að það samkomulag sem þetta mál snýst um, Icesave 3, verði samþykkt.

Þetta er ekki auðvelt, það er ekki auðvelt að leggja þetta til, hafandi þá ríkisstjórn sem hér er. Auðvelda leiðin að mínu mati fyrir stjórnarandstöðuflokk með slíka hörmungarríkisstjórn hefði að sjálfsögðu verið sú að segja: Við komum ekki nálægt þessu og látum ykkur bera ábyrgð á þessu. Þið skuluð bara tryggja þetta, þið eruð með ykkar meiri hluta og þið skuluð klára málið. Það er að mínu mati auðvelda leiðin. Ég tel að við sjálfstæðismenn séum að fara ábyrgu leiðina og þá vísa ég til þess hvernig aðkoma okkar að málinu öllu hefur verið frá upphafi. Við höfum ávallt haldið stíft fram og dregið það sérstaklega fram, ekki síst formaður okkar, á öllum stigum þessa máls að við séum ekki að viðurkenna lagalegar skuldbindingar okkar Íslendinga varðandi Icesave-skuldbindingarnar, hvorki ríkisábyrgð né annað. Það er engin lagaleg skuldbinding sem knýr okkur Íslendinga til að fara í málið með þessum hætti. Því höfum við alltaf haldið á lofti og hvikum ekki frá því. Þess vegna skipti miklu máli að nálgast málið með þeim hætti sem við sjálfstæðismenn gerðum. Við héldum þessu á lofti en sögðum um leið allt frá árinu 2008: Við þurfum pólitíska lausn. Við viljum beita okkur fyrir pólitískri lausn því að Bretar og Hollendingar hafa fram til þessa verið vinaþjóðir okkar.

Við Íslendingar höfum lagt okkur í líma við að ná samkomulagi og við sjálfstæðismenn höfum talað um það, en ekki fyrir hvað sem er. Ekki fyrir þann samning sem ríkisstjórnin undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur kynnti fyrir þjóðinni og reyndi að láta bæði þing og þjóð kokgleypa, samning sem var upp á um 500 milljarða kr. Þá þrömmuðu hv. þingmenn í þessum sal hingað upp og sögðu að við yrðum að samþykkja hann. Nei takk, sögðum við, við tökum ekki þátt í slíku. Við viljum fara með málið fyrir dómstóla ef þetta er það sem er boðið upp á. Við sögðum alltaf: Við erum reiðubúin að halda áfram ef við náum betri lausn, við látum ískalt hagsmunamat ráða ferð. Mig rekur ekki minni til þess á neinu stigi málsins að þingmenn Sjálfstæðisflokks hafi sagt að þeir hefðu fyrirvara á samningaleiðinni, þ.e. að þeir vildu halda sig við lagalegan fyrirvara og ekki semja um neitt. Það voru aldrei settir neinir fyrirvarar af okkar hálfu um að við ætluðum aldrei að semja. Okkur var alvara í því að reyna að ná samkomulagi þannig að við gætum leyst þetta mál.

En eins og ég segi, þetta er ekki auðvelt með núverandi ríkisstjórn. Í síðustu viku þegar við fengum dóm Hæstaréttar varðandi stjórnlagaþingið sýndi það sig hvernig ríkisstjórnin umgengst dómstóla með hæstv. innanríkisráðherra og forsætisráðherra í broddi fylkingar, talandi niður Hæstarétt og þá sem þar hafa verið skipaðir og hafa staðið sig með sóma fyrir íslenska þjóð fram til þessa. Þá komu forustumenn ríkisstjórnarinnar og töluðu ekki bara niður Hæstarétt heldur gerðu líka það sem þeim einum er lagið, hnýttu í Sjálfstæðisflokkinn. Auðvitað rennur manni í skap þegar allt er „helvítis“ Sjálfstæðisflokknum að kenna. Manni rennur í skap þegar maður upplifir í samningaferlinu, þegar farið var í þjóðaratkvæðagreiðslu, að hæstv. forsætisráðherra talaði niður þjóðaratkvæðagreiðsluna, hvatti ekki einu sinni fólk til taka þátt og greiða atkvæði með hagsmunum Íslands.

Ég gæti líka farið í landsdóminn og hugsað eins og andstæðingur ríkisstjórnarinnar hefur gert og við höfum gert: Þetta er ömurleg ríkisstjórn, að beita sér fyrir pólitískum ofsóknum og ákærum á hendur fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Að mínu mati voru það ekkert annað en pólitískar ofsóknir. Hér hafa ráðherrar talað og biðlað til þingsins um að menn sýni skilning á ákvörðun í málinu í ljósi aðstæðna hverju sinni. Já takk, ég skal alveg gera það. Ég skal sýna skilning og reyna að sýna skilning á mistökum í þeim ákvörðunum sem teknar voru í málinu. En þá bið ég líka um hið gagnstæða. Þess vegna spyr maður sig: Hvað er maður eiginlega að gera með því að styðja það samkomulag sem við erum að tala um, samkomulag og frumvarp sem kemur frá ríkisstjórninni, frá hæstv. fjármálaráðherra? En við höfum ekki efni á að hugsa þannig. Og ég vil ekki að við nálgumst þetta eins og hefur verið talað um að við gerum, stjórn og stjórnarandstaða. Þar sé víglínan dregin. Við höfum ekki efni á því og það hefur verið kallað eftir því í samfélaginu og líka meðal ábyrgra forustumanna í þinginu, ekki síst af hálfu stjórnarandstöðunnar, að leita eftir aukinni samstöðu og samvinnu, að leita lausna óháð því hver leggur málið fram.

Ég reyni að ýta ergelsinu út í ríkisstjórnina til hliðar, ríkisstjórn sem hefur stöðvað allt atvinnulíf og efnahagslíf og þannig ógnað stöðugleika fjölskyldna og heimila og fyrirtækja í landinu, þegar við fjöllum um þetta mál. Ég skal líta til þess hvernig við sjálfstæðismenn höfum nálgast málið. Við höfum ávallt beitt okkur fyrir pólitískri lausn, en ekki fyrir hvað sem er. Það höfum við sýnt á öllum stigum málsins. Þess vegna er það örlítið undarlegt og pínu sárt þegar stjórnmálamenn í öðrum flokkum sem ég hef litið mikið til koma og tala um kúvendingu sjálfstæðismanna og tala um það á gömlu nótunum og fara í gömlu pólitíkina og segja: Hvað á nú að fá fyrir? (Gripið fram í.) Eru sjálfstæðismenn komnir af stað með Samfylkingunni? Ég vil reyndar vekja athygli á því að þetta er frumvarp frá Vinstri grænum, frá hæstv. fjármálaráðherra. Hvers konar gamaldags hugsunarháttur er þetta? (Gripið fram í.) Þeir geta verið góðir inn á milli.

Ég bið um skynsemi og ég bið um að menn horfi á málið í samhengi en slíti það ekki úr samhengi. Þess vegna er niðurstaða okkar sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd með þeim hætti sem raun ber vitni. Hvert var hlutverk fjárlaganefndar? Hlutverk fjárlaganefndar var að fara yfir samninginn. Og það er rétt sem Lee Buchheit sagði, við eigum og við áttum að semja á grundvelli eignasafnsins, við áttum að meta eignasafn gamla Landsbankans. Það er m.a. hlutverk fjárlaganefndar. Ef menn segja að það sé ekki eitt af hlutverkum fjárlaganefndar að meta eignasafnið þá veit ég ekki hvert hlutverk fjárlaganefndar var í þessu máli. Ef menn ætla að segja: Nei, við getum ekki samþykkt þetta út af því að eignasafnið er svo sveiflukennt, t.d. verslanakeðjan Iceland, það getur breyst frá degi til dags, þá veit ég ekki af hverju við fórum af stað í þennan leiðangur.

Auðvitað lögðum við okkur fram um það og fengum bestu menn til að meta með okkur hvert raunverulegt virði og mat eignasafns Landsbankans væri. Við áttum góðan trúnaðarfund með skilanefnd og slitanefnd þar sem við fórum mjög gaumgæfilega yfir hvert raunverulegt verðmæti eignasafnsins er, ellegar hefðum við ekki getað komið með þá nálgun sem við erum með. Mesta áhættan í þessu öllu saman er eignasafnið og útgreiðslur á grundvelli eignasafnsins og forgangsröðunar. Við metum það svo að mun gleggri sýn sé á eignasafni Landsbankans nú en áður sem gefur okkur færi á að líta þennan samning jákvæðari augum en fyrri samninga, fyrir utan að það er búið að gjörbylta þeim samningum, bæði efni og formi. En þetta er áhættusamningur. Áhættan tengist í fyrsta lagi, eins og ég gat um áðan, endurgreiðslunni úr eignasafninu, í öðru lagi gengisáhættu og síðan er náttúrlega stærsta áhættan að okkar mati ríkisstjórnin sjálf. Við verðum að fara að fá uppbyggilegri fréttir frá ríkisstjórninni en af einhverju karpi innan hennar. Við þurfum að fá fréttir um að við ætlum að fara af stað með atvinnulífið. Þá verður enn auðveldara að uppfylla samninginn. Ég beini því til hæstv. utanríkisráðherra og fjármálaráðherra að koma sér í þau verk.

Áhættan á hinn bóginn er að fara fyrir dómstóla. Við erum ekkert hrædd við að fara með málið fyrir dómstóla en við verðum að meta hvaða hagsmunir eru fólgnir í því að fara með málið, eins og það er núna, fyrir dómstóla. Ég las lögfræðiálitið. Það eru skiptar skoðanir meðal okkar bestu lögfræðinga á hve mikil áhætta það er. En hún er raunveruleg, áhættan er raunveruleg, það kemur berlega fram. Ég hlusta á menn sem við höfum mikið litið til og hafa verið okkur ómetanlegir í að tryggja hagsmuni okkar, menn eins og Ragnar Hall lögmaður. Við sameinuðumst öll um það í síðasta samningi og líka þessum að reyna með ákveðnum breytingum að tryggja forgang íslenska innstæðutryggingarsjóðsins varðandi útgreiðslur. Hvað sagði hann á fundi fjárlaganefndar? Hann sagði: Það er ávallt áhætta með dómsmál. Það eru reyndar fleiri lögmenn sem segja þetta, m.a. úr lögfræðingahópnum, Benedikt Bogason, við vitum að Lárus Blöndal, fulltrúi okkar stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni, hefur sama sjónarmið, allt eru það menn sem vildu hafna síðustu samningum en meta nýja samninginn á þeim grunni sem liggur fyrir. Þeir segja: Við erum ekki búin að viðurkenna með lögum neinar skuldbindingar en við erum að meta áhættuna. Það er áhætta í dómsmáli. Það er áhætta að fara fyrir dómstóla. Ragnar Hall sagði orðrétt: Samningurinn sem liggur fyrir er mjög viðunandi, Íslendingar geta lifað við þann samning. Þetta sjónarmið er víða í þeim umsögnum sem koma fram. Við höfum ekki fengið harðorðar umsagnir sem segja: Stopp, hingað og ekki lengra. Menn vilja fara varlega og átta sig á því að þetta er hagsmunamat í þá veru að fara annars vegar þessa samningaleið eða dómstólaleiðina hins vegar.

Gott og vel. Ef menn hefðu sagt allan tímann: Við viljum ekki semja, við viljum ekki taka þátt í samningunum vegna þessa prinsipps, þá hefði ég skilið það sjónarmið nú, ef menn hefðu haldið því hátt á lofti. En ég veit ekki betur en að Framsóknarflokkurinn, Hreyfingin og ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf talað um að nálgast málið út frá pólitísku sjónarhorni og reyna að ná samningum, eins og ég hef komið inn á. Okkur var því fúlasta alvara þegar við tilnefndum okkar mann í samninganefndina. Það var alvara þar að baki, það var ekki sýndarmennska. Þó að það sé mjög freistandi fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að segja bara, eins og ég gat um áðan: Við ætlum ekki að koma nálægt þessum samningum, reynið nú að leysa einhver mál, kæra ríkisstjórn, þá höfum við ekki efni á því miðað við hvernig við höfum nálgast þetta. Ég held að það hefði verið pólitískur hráskinnaleikur ef við hefðum ekki nálgast þetta af ábyrgð og metið hvern einn og einasta þátt í skjalinu.

Það hefur verið komið inn á hversu mikill munur er á samningunum. Við verðum að meta stöðuna eins og hún hefur m.a. birst í skjölum frá fjármálaráðuneytinu. Það þýðir ekkert að tala niður tölurnar. Ég skil vel að stjórnarliðum líði illa yfir að hafa reynt að knýja í gegn þá hrikalegu samninga sem fólust í Icesave 1 og 2. Auðvitað líður mönnum illa, þetta voru mistök og ráðherrar væru menn að meiri, hæstv. utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra sem eru hér, ef þeir viðurkenndu það og segðu: Okkur varð á. Það getur vel verið að það hafi verið í ljósi þeirra aðstæðna sem voru uppi á þeim tíma en þeim varð á í messunni. Eins hefði verið meiri bragur á því ef hæstv. forsætisráðherra hefði komið í síðustu viku og sagt varðandi stjórnlagaþingið: Já, í offorsi varð okkur á í messunni og við biðjumst velvirðingar á þeim mistökum sem voru gerð í tengslum við stjórnlagaþingið, og sýna örlitla auðmýkt en ekki ráðast að Hæstarétti, sveitarfélögum og Sjálfstæðisflokknum sem er klassískt fyrir ríkisstjórnina til að límið haldi á þeim bænum. Það hefði verið stíll og karakter yfir því ef ríkisstjórnin hefði einfaldlega sagt: Já, okkur urðu á mistök og okkur hefði aldrei tekist að fá miklu betri samninga nema af því að við komum öll að því að leysa málið. Samningarnir fóru úr því að kosta okkur tæplega 500 milljarða kr. niður í að verða tæplega 50 milljarðar kr. og jafnvel mun lægri ef allt gengur eftir.

Það var enginn að segja að líf stjórnmálamanna væri einfalt. Það er okkar að ganga í mál, vega og meta áhættuna sem fylgja málum og vera samkvæm sjálfum okkur. Það er það sem ég bið um, að menn séu samkvæmir sjálfum sér. Ég er stolt af því að við sjálfstæðismenn föllum ekki í þá freistni að fara í hina klassísku gömlu pólitík um stjórn og stjórnarandstöðu í þessu máli. Þó að það sé svo undurfreistandi með þessa ömurlegu ríkisstjórn þá gerum við það samt ekki. Við höfum frá upphafi málsins verið samkvæm sjálfum okkur. Við metum niðurstöðuna sem fyrir liggur. Hún er miklu betri en það sem var reynt að knýja í gegn, bæði gagnvart þingi og þjóð. Hún er þannig að við sjálfstæðismenn sem erum í fjárlaganefnd, ásamt fleirum, mælum með því að málið verði samþykkt á þeim forsendum að menn séu upplýstir um það. Ég bið menn að fara vel yfir nefndarálitið sem við höfum lagt fyrir þingið.