139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni (Gripið fram í: Svar við andsvari.) að — já, þetta er svar við andsvari — við deilum svipuðum skoðunum varðandi atvinnulífið og hvað gera þurfi í samfélaginu til að koma því af stað. Það er ekki nokkur spurning. Ég sakna þess hins vegar að það munar miklu að þurfa að takast á við 40–50 milljarða eða 200–250 milljarða, eins og verstu spár, miðað við þennan samning, ég segi kannski ekki verstu en slæmar spár gera ráð fyrir að geti orðið og sjá má í ágætu nefndaráliti hv. þm. Þórs Saaris. (Gripið fram í.) Já, sérstaklega.

Annað athyglisvert kemur fram í svarinu. Það má skilja afstöðuna þannig að nú þurfi að treysta á stjórnvöld til þess að koma atvinnulífinu af stað þannig að við þurfum ekki að hækka skatta eða grípa til aðgerða. Er það virkilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn leggur allt sitt traust á ríkisstjórnina, að hún skapi aðstæður sem verði til þess að við ráðum við greiðslurnar? Er það virkilega þannig? (Gripið fram í.) Ef svo er þá erum við ekki á sömu plánetu og ríkisstjórnin, það er alveg ljóst. Ég trúi ekki að hún muni nokkurn tímann koma okkur út úr efnahagsörðugleikunum eða koma atvinnulífinu af stað. Þannig að (Gripið fram í.) sjálfstæðismenn þurfa að skýra hvernig þetta á að geta gengið upp, að vera með ríkisstjórn sem mér sýnist ætla að sitja býsna lengi, nema einhver ætli að styrkja hana, það getur svo sem verið eitthvað sem gæti hjálpað til. Ríkisstjórnin þarf að taka á málum og byggja upp, eflaust vill hún gera það en hefur ekki haft til þess tæki eða tól. Því spyr maður Sjálfstæðisflokkinn og þingmenn hans (Forseti hringir.) hvort þeir leggi traust sitt á að ríkisstjórnin standi sig. (Gripið fram í.)