139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn erum við mætt til að ræða Icesave. Ég sagði hér ekki alls fyrir löngu, líklega í nóvember eða um áramótin, ég man ekki hvenær, og ég segi það aftur: Þetta óféti er eins og jólakötturinn, hann kemur í kringum jólin og allir hræðast hann, hann étur börnin okkar. Og það er nákvæmlega það sem Icesave mun gera, það mun éta börnin okkar.

Ungir sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af framtíð sinni og barna sinna og ályktuðu um það með mjög kröftugum hætti að flokkurinn þeirra væri búinn að tapa áttum. Ekki er hægt að skilja ályktun ungra sjálfstæðismanna á annan veg en þann að hún sé mjög harður dómur á þingflokkinn, sér í lagi þar sem talað er um hv. þingmenn í fjárlaganefnd, ágæta vini mína. Ég get nú ekki tekið undir að þeir séu óalandi og óferjandi, ég tek ekki undir það. (Gripið fram í.) Ályktun ungra sjálfstæðismanna er hins vegar mjög kröftug og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa örlítið upp úr henni — ég tek fram að þetta er tekið af netmiðlinum visir.is þannig að ég hef fyrirvara á því að þetta sé orðrétt allt saman:

„Ungir sjálfstæðismenn hafa frá upphafi hafnað að þeirra kynslóð, og kynslóð barna þeirra, verði bundin á skuldaklafa Icesave án þess að réttmætur grundvöllur sé til þess og að þær séu undirseldar mikilli áhættu um endanlega fjárhæð þeirra skulda.“

Vitaskuld er þetta málið í hnotskurn. Það er verið að leggja skuldaklafa á börnin, framtíðina, fjölskyldurnar og ungir sjálfstæðismenn gera athugasemd við það. Það var fleira forvitnilegt á netmiðlunum í dag, um afstöðu Sjálfstæðisflokksins í málinu, en ég ætla kannski ekki að eyða miklu meiri tíma í það að þessu sinni.

Við höfum í höndunum geysimikið af gögnum um þetta stóra mál. Það er alveg ljóst að sá samningur sem liggur fyrir er miklu betri en þeir sem við höfum áður verið að tala um í þinginu, það dylst engum. En því á eftir að svara með afgerandi hætti hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, gat í tvígang reynt að fara með algjörlega galna samninga í gegnum þingið, samninga sem eru mörg hundruð milljörðum verri en það sem við ræðum hér. Því á eftir að svara hvernig stendur á því að menn unnu ekki betur og undirbjuggu sig ekki betur í rauninni. Mikil barátta var háð til að koma í veg fyrir þau miklu mistök og það gleymist seint þegar þingmenn fullyrtu hér í þingsal að ekki væri verið að skrifa undir Icesave-samninga, það væri verið að ræða málin, en síðan kom allt annað í ljós. Við þurfum að sjálfsögðu að halda því til haga.

Eins og ég sagði áðan höfum við mikið af gögnum og ýmsir sérfræðingar hafa gefið álit sitt á kærum ESA, á samningnum sjálfum o.s.frv. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að skoðanir eru skiptar um það hvernig málaferlum mundi lykta fyrir Ísland. Það er alveg ljóst að skoðanir eru skiptar um það, við þurfum ekkert að vera að draga fjöður yfir það. Það er hins vegar hvergi sagt — ég hef alla vega ekki lesið það, ég ætla ekki að fullyrða að það standi hvergi — að það sé útilokað, eða að það séu endilega minni líkur á því, að málið ynnist ef það yrði farið í mál. Á það hefur verið bent að Bretar og Hollendingar hafa ekki sérstaklega mikla hagsmuni af því að fara í málarekstur og hvað þá að reyna að hnekkja neyðarlögunum, því að þeirra hagsmunir eru vitanlega tryggðir með neyðarlögum eins og annarra sem þau náðu til.

Ég ætla að vitna, með leyfi forseta, í greinargerð eða skýringar sem Peter Ørebech, norskur sérfræðingur, ef ég man rétt, gerði og fjallaði um lagalegan misskilning með sérstakri áherslu á Eftirlitsstofnun EFTA. Það er dálítið merkilegt að lesa þessa greinargerð, að sjá hlutina með augum þessa erlenda aðila.

Á bls. 5 í yfirliti hans, á bls. 177 í þessum skjalabunka sem fylgir, stendur, með leyfi forseta:

„Vegna fjárskorts tryggingarsjóðsins gerir samningurinn hins vegar Ísland að hinum raunverulega skuldara, eins og allir aðilar hans gera sér fulla grein fyrir. Að mínu áliti jafngildir þetta umritun á tilskipun 94/19/EB af hálfu Hollendinga og Breta (í samráði við Ísland ef Alþingi staðfestir samningana), aðilum sem hafa ekki reglusetningarvald fyrir hönd ESB.“

Það er hans mat að ef þetta gengur eftir, ef við samþykkjum þennan samning, séum við í raun að taka okkur það vald að breyta reglugerð Evrópusambandsins. Sé þetta rétt er það vitanlega mjög merkilegt framtak af Íslands hálfu að ætla að breyta regluverki Evrópusambandsins með einni ákvörðun. Maður veltir því fyrir sér hvort sá ótti, sem hæstv. utanríkisráðherra veit að býr mér í brjósti gagnvart Evrópusambandinu, sé ástæðulaus ef það er svona einfalt að breyta regluverki þessa sambands.

Í lokaorðum þessa sérfræðings kemur síðan fram að það sama hafi í raun gilt um alla innstæðueigendur varðandi Icesave þegar neyðarlögin voru sett því að Íslendingar sem eru búsettir erlendis og áttu eignir á Icesave fengu að sjálfsögðu ekkert bætt frekar en aðrir.

Það er margt annað í þessum fylgiskjölum — ég hugsa að ég eyði ekki tíma mínum í að fara yfir álit þessara fjögurra góðu lögmanna sem skiluðu ítarlegri greinargerð. Þar er bæði talað jákvætt og neikvætt um báðar leiðir sem hægt er að fara í þessu og má túlka á þann veg að sitt sýnist hverjum.

Eðli Icesave-samningsins er að sjálfsögðu það að verið er að ætlast til þess að íslensk þjóð taki að sér og greiði skuldir einkaaðila. Það er verið að færa skuldaklafann yfir á aðila sem hafa ekkert með skuldirnar að gera, komu hvergi nálægt því að búa þær til.

Það er prinsippspurning í þessu, og menn geta ekkert horft fram hjá henni: Ber okkur lagaleg skylda til að gera þetta? Nei, flestir eru sammála um að okkur beri ekki lagaleg skylda til þess. Við getum deilt um það hvort það muni þjóna hagsmunum Íslands eða ekki að fara þessa leið. Það hafa komið vísbendingar um að þetta muni dýpka efnahagskreppuna, ef þannig má orða það, lengja í gjaldeyrishöftum og þess háttar. Aðrir eru á öðru máli. Það kemur fram í áliti sjálfstæðismanna, ef ég man rétt, að það muni ekki gera það, einhvers staðar las ég það alla vega. Nú hrista þeir hausinn, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þannig að þetta er einhver misskilningur. (Gripið fram í: Heyrðirðu það?) — Gæti hafa heyrt það, já. Hvað um það, því hefur alla vega verið haldið fram hér í ræðustól að það muni líklega ekki hafa áhrif á gjaldeyrishöftin, lengingu þeirra og jafnvel styttingu. Ef ég man rétt var það — ja, það er best að fara ekki að muna neitt því að þeir eru alveg búnir að rugla mig, þessir félagar.

Það er hins vegar alveg ljóst að þarna er álitaefni og þá er það spurning: Hvar eigum við að standa, hvora áhættuna eigum við að taka? Það er væntanlega það sem þingmenn eru að reyna að gera upp við sig þessar mínúturnar og klukkustundirnar, hvar áhættan eigi að liggja. (Utanrrh.: … Sjálfstæðisflokkinn um það.) — Já, ég er það því.

Inn í þetta tvinnast að sjálfsögðu mál sem mér finnst mjög merkilegt að sjálfstæðismenn skuli ekki hafa nefnt í þeim ræðum sem ég hef heyrt, og það er sú kúgun sem verið hefur í öllu þessu máli af hálfu erlendra ríkja og ríkjabandalaga eins og Evrópusambandsins og þeirra þjóða sem þar eru. Við sáum í leynimöppunni — ég veit ekki hvort það er leynimappa enn þá — skýrar vísbendingar um það að Evrópusambandið beitti mikilli hörku til að fá okkur til að taka á okkur þessar skuldbindingar.

Í þessa umræðu vantar álit efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar. Hv. þm. Helgi Hjörvar fór aðeins yfir það í sinni ágætu ræðu hvernig staðan á því væri og það er vitanlega mjög mikilvægt að fá þau álit fram áður en við förum í 3. umr. um málið. Ég efast ekki um að í álitum sem koma þaðan verði athugasemdir eða punktar sem við þurfum að taka tillit til.

Eins og ég sagði hér í upphafi ræðu minnar er ljóst að þetta er betri samningur, þetta er betra tilboð, það er alveg kristaltært. En við deilum um það hversu miklu betri hann er, það fer eftir því hvernig menn reikna. Það eru hins vegar ýmsir punktar sem standa enn út af sem við setjum spurningarmerki við, t.d. það hvenær farið verður að greiða út úr þrotabúinu. Vitum við það? Nei, við vitum ekki hvenær það verður. Það getur að sjálfsögðu tafist, það getur gerst fyrr en við ætlum, en þetta er óljós þáttur í öllu dæminu, hvenær farið verður að greiða út úr því. Um það er deilt hvernig eignir þrotabúsins eru, hvort þær eru áhættufjárfestingar — við vitum að þá er áhættan meiri — eða hvort það eru góðar, tryggar fjárfestingar. Hér var nefnt skuldabréf, sem að sjálfsögðu skiptir máli, en það eru líka aðrar eignir þarna inni sem við getum ekki sagt til um raunverulegt verðmat á. Það fer allt eftir því hver þróunin verður á næstu mánuðum og árum. Svo er það vitanlega gengisáhættan, sem hefur verið nefnd hér, og slíkt.

Er áhætta í dómsmáli? Já, það er að sjálfsögðu áhætta. En gleymum því ekki að það kemur fram að að sjálfsögðu munu dómarar dæma eftir þeim lögum sem eru í gildi og við verðum að bera fullt traust til þeirra. Það er hins vegar ljóst að slíkt mál yrði rekið fyrir íslenskum dómstóli ef til þess kæmi og væntanlega munu þá héraðsdómur og Hæstiréttur fjalla um það.

Enn og aftur hafa komið fram fullyrðingar um að þetta skipti miklu máli varðandi endurreisn Íslands. Ég tek það jafntrúanlegt hversu miklu máli það skiptir og allar þær hrakspár sem voru um að allt færi í kaldakol ef þetta yrði ekki samþykkt. Við höfum búið við það nú í nærri tvö ár að ekkert muni ganga nema þetta mál verði leyst. Á sama tíma koma stjórnvöld, ráðherrar, hér í ræðustól, berja sér á brjóst og tala um hversu gríðarlegur árangur hafi náðst, hversu glæsilegt þetta sé og hvers konar snilldarstjórn sé við völd. Þá veltir maður því fyrir sér hvort í stjórninni séu — og hlustaðu nú, hæstv. utanríkisráðherra — þá ekki hreinir kraftaverkamenn, að geta bjargað Íslandi frá því að verða Kúba norðursins, bjarga frostavetrinum og öllu því sem átti að dynja yfir okkur. Það hlýtur bara að vera. En þá veltir maður því líka fyrir sér hvernig stendur á öllum fólksflutningunum, atvinnuleysinu, ergelsi hjá fyrirtækjum og allri ríkisvæðingunni sem virðist vera helsta trompið.

Ég hef spurt út í gjaldeyrishöftin og mun örugglega, í að minnsta kosti einni ræðu í kvöld og vonandi fleirum, fá útskýringar á því af hverju þetta hefur ekki áhrif á lengingu gjaldeyrishafta. Ég vona alla vega að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sem hefur margfalt meira vit á þessu en ég, útskýri það nú fyrir skussanum af hverju þetta hefur ekki áhrif því að það eru margir sem segja að þetta muni lengja í gjaldeyrishöftunum. Það er ágætt að heyra þá önnur rök á móti því, við verðum að sjálfsögðu alltaf að hlusta á öll rök í svona málum.

Því er haldið á lofti að við þurfum að klára Icesave, að við þurfum að losna við þetta mál, að það tefji fyrir. Fyrir hverju tefur það og af hverjum þurfum við að losna við það? Er það vegna þess að það er svo leiðinlegt að tala um þetta? Getur verið að einhverjir þingmenn séu orðnir svo hundleiðir á því að tala um Icesave að það verði bara að klára þetta — við skrifum bara upp á 50 milljarða eða 200 milljarða framtíðartékka af því að við getum ekki verið með þetta yfir okkur lengur? Þannig má bara ekki nálgast þetta mál. Þetta er miklu stærra og alvarlegra en svo að menn geti látið sér leiðast málið, að það þvælist fyrir. Umræðunni er svolítið stýrt með þeim hætti að þjóðin, fólkið, sé orðin leið á þessu, nenni ekki að hlusta á þetta, nenni ekki að hafa þetta hangandi fyrir sér. Það getur vel verið að svo sé að einhverju leyti. En það þýðir ekki fyrir þingmenn sem bera ábyrgð á því að taka ákvarðanir eins og þessar, um framtíð barna og fjölskyldna, að leggja þetta á þeirra herðar út af því að þeir eru orðnir leiðir á þessu máli. Það finnst mér mjög hæpið að gera svo að ég sé alveg hreinskilinn með það.

Hvað ef niðurstaðan verður sú að við samþykkjum að axla þessar byrðar — þær eru á því bili sem við höfum heyrt hér — og ekkert gerist í kjölfarið? Hvað ef ekkert breytist, hvað ef stuðningur sjálfstæðismanna við ríkisstjórnina og von þeirra um að hún standi sig í verki bregst, hvað ef ekkert fer á flug eftir þennan frágang, hvað þá? Ef þetta skiptir engu máli, hvað gerist þá, hvernig er staðan þá? Er þá búið að liðka til fyrir einhverjum öðrum hlutum sem við vitum ekki um hér? Er búið að liðka til fyrir því að við fáum inngöngu í Evrópusambandið? Það getur vel verið að það sé lykill í þessu að með því að samþykkja þetta fáum við klapp á bakið og betri viðræður við það samband, ég ætla ekkert að útiloka það. Maður veit ekkert hvað býr að baki, maður spyr sig, eins og sagt er.

Hvernig munu stjórnvöld bregðast við þegar við stöndum hér og spyrjum: Bíddu, þið sögðuð okkur að það mundi allt lagast og breytast við að borga Icesave, atvinnulífið mundi fara á skrið, fjárfestingar aukast, hagur heimilanna batna og slíkt — hvað ef það gerist ekki? Ætlar þá stjórnin að segja af sér? Ég geri ráð fyrir að hæstv. utanríkisráðherra — hann hlýtur að vera löngu búinn að berja í borðið og ætla að koma í andsvar við mig — geti svarað slíku. Því hefur nefnilega verið haldið að þjóðinni af þingmönnum að þetta mál verði að leysast svo að við förum að horfa fram á við, svo að við förum að sækja fram.

Ég veit ekki til þess að þær fullyrðingar hafi verið rökstuddar með nokkrum hætti öðrum en þeim að fjárfestingum sé haldið frá landinu, þ.e. að verið sé að koma í veg fyrir að við fáum erlendar fjárfestingar, erlent fjármagn, inn í landið á sama tíma og við vitum að íslensk fyrirtæki eru að fjármagna sig erlendis með þeim hætti. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér í þessu, að erlend fjárfesting fari nú af stað. Það er að vísu alltaf betra að við nýtum þá fjármuni sem eru til innan lands til fjárfestinga því að það verður mikið meira eftir af þeim. En segjum að fjárfesting fari hér af stað, þá er það væntanlega varðandi virkjanir og orkuöflun, uppbyggingu slíkra orkufrekra iðnaðartækifæra. Ég fagna því svo sannarlega ef ríkisstjórnin getur stuðlað að slíku með því framtaki að ná þessu hér í gegn.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er þetta mál sem kemur hingað inn reglulega. Við höldum ræður um kosti þess og galla, metum stöðuna. Það er alveg ljóst að þingmenn munu þurfa að meta þetta, og eru vonandi að gera það, út frá hagsmunum Íslands, hagsmunum framtíðarinnar og hagsmunum þjóðarinnar. Hver niðurstaðan svo verður getur framtíðin ein sagt okkur, það mun koma í ljós innan nokkurra ára hvað þetta mun þýða. Við munum sjá Icesave bregða fyrir í fjárlögum næstu ára, það er alveg ljóst, áratuga jafnvel ef allt fer á versta veg. Þá munum við þurfa að spyrja okkur þeirra spurninga hvernig við eigum að fjármagna það, hvernig við eigum að borga þetta. Ef uppsveiflan 2012 verður ekki sú sama og ríkisstjórnin hefur boðað, hvaðan tökum við þá peninga, af hverju skerum við? Hverja látum við borga hærri skatta? Einhvern veginn verðum við að borga þetta, ég held að það sé alveg ljóst. Látum við fjármálafyrirtækin borga þetta? Mér finnst það ágætishugmynd að gera það með einhvers konar bankaskatti eða einhverju slíku. En þá verðum við að bregðast við því á þann veg að það verði hreinlega tekið af myljandi hagnaði þeirra en ekki velt yfir á viðskiptavinina eingöngu.