139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er margt heldur ömurlegt við þetta mál og margvísleg kúgun sem við höfum orðið fyrir, m.a. það að þetta tjón skuli hafa orðið vegna einkareksturs. Já, okkur ber ekki lagaleg skylda til að axla þessar byrðar og þannig gætum við haldið áfram. En allt er það að baki og það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það sem menn standa andspænis núna er einfaldlega það sem þingmaðurinn orðaði svo ágætlega: Hvora áhættuna eigum við að taka?

Af því tilefni vildi ég beina tveimur spurningum til þingmannsins. Sú fyrri: Hef ég ekki skilið hann og flesta aðra framsóknarmenn rétt til þessa, að þeir teldu rétt að freista þess að ná samningum um þetta mál fremur en að fara dómstólaleiðina? Og þá í öðru lagi: Er það ekki mat hv. þingmanns að þeir samningar sem Lee Buchheit og félagar hans í samninganefndinni náðu séu nokkurn veginn eins góðir samningar og mögulegt er? Ég þarf auðvitað ekki að stafa það ofan í hv. þingmann að af sjálfu leiðir, ef svarið við þessum spurningum er já, að maður hlýtur að spyrja hvort ekki sé rökrétt að styðja málið á þessu stigi þrátt fyrir að menn hafi haft málefnalegar og ýmsar ærnar ástæður til að leggjast gegn því og veita gott og sterkt aðhald á fyrri stigum málsins.