139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, við tókum undir það að ef hægt væri að ná samningi sem legði ekki slíkar byrðar á þjóðina til framtíðar væri það eflaust betra eða í það minnsta tilraunarinnar virði að ganga þá leið. Við höfum hins vegar aldrei útilokað það, í það minnsta ekki sá er hér stendur, að dómstólaleiðin væri betri og réttari. Það hefur ekkert breyst í því að okkur ber ekki lagaleg skylda til að taka á okkur þessar byrðar. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fullyrða að dómstólaleiðin skili endilega betri niðurstöðu, mér dettur það ekki í hug af því að ég veit það ekki, en er það ekki hlutur sem við þurfum að velta fyrir okkur? Er það betri leið fyrir okkur í stað þess að láta svínbeygja okkur í duftið, beygja okkur í duftið fyrir erlendum ríkjum sem eru eins og handrukkarar á Íslandi? Ég veit að það eru ríki sem hæstv. utanríkisráðherra ber mikið traust til og vill gjarnan leggjast í faðm þeirra, í faðm Evrópusambandsins sem er höfuðkúgarinn í þessu máli.

Annað sem spurt var um var hvort við vildum ná eins góðum samningi og mögulegt væri. Jú, að sjálfsögðu, en ég treysti mér ekki til að segja að þetta sé besti mögulegi samningur. Það eru hins vegar aðilar sem fullyrða að svo sé, samninganefndin hefur sagt að hún telji að ekki sé hægt að ná betri samningi. Það þýðir samt ekki að mér líki samningurinn, það segir ekkert til um það hvort ég sé sáttur við þennan samning þó að samninganefndin sé það. Mér finnst áhættan gríðarlega mikil. Mér finnst það mikil áhætta ef við erum að tala um 40 upp í yfir 200 milljarða.