139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það mun skýrast á morgun hvernig Framsóknarflokkurinn greiðir atkvæði.

Varðandi fyrri spurninguna notaði ég aldrei orðalagið „ásættanlegar byrðar“, (Gripið fram í: Jú, jú.) aldrei nokkurn tímann, ég talaði um ásættanlega niðurstöðu. (Utanrrh.: Það eru ásættanlegar byrðar.) Sú niðurstaða gæti t.d. verið að Bretar og Hollendingar hefðu hreinlega tekið allt draslið, það gæti hafa orðið ásættanleg niðurstaða. Eða að Bretar hefðu viðurkennt að þeir hefðu beitt okkur gríðarlegri hörku, ósvífni, níðst á okkur með hryðjuverkalögunum (Gripið fram í: Þeir eru að …) og þar af leiðandi skuldajafnað við okkur. Það gæti hafa verið ásættanleg niðurstaða, svo dæmi sé tekið.

Það er ekki hægt að svara þessu á annan hátt en að ég hef miklar efasemdir um að sá samningur sem hér er sé sú ásættanlega niðurstaða sem ég hefði viljað sjá. Ég vonast til þess að þingmenn tengi aðeins saman þær ofurkröfur sem Bretar og Hollendingar gera á okkur og þá staðreynd hvaða tjóni þeir ollu okkur með hryðjuverkalögunum. Það er alveg ljóst að við urðum fyrir tjóni þegar hryðjuverkalögunum var beitt. Af hverju í ósköpunum höfum við ekki sett fram kröfu á Breta — við getum ekki sett þá kröfu á Hollendinga, það er alveg ljóst — um að þeir mæti okkur með einhverjum hætti vegna þess tjóns sem þeir ollu okkur?

Nú hefur verið mælt fyrir þingsályktunartillögu um að mál verði höfðað gegn Bretum og ég vona svo sannarlega að þeir sem eru svo áfjáðir í að greiða Bretum skuldir sem okkur ber ekki að greiða verði jafnáfjáðir í að innheimta hjá Bretum það sem þeir skulda okkur.