139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það væri komið grín og glens í þingmanninn í ræðu hans vegna þess að klukkan er orðin svo margt. Ég átta mig ekki á því af hverju við stöndum hér á Alþingi og ræðum frumvarp um Icesave sem verður líklega að lögum með nýjasta stuðningi sjálfstæðismanna. Þingmaðurinn lýsir því í ræðustól að það felist hreinlega ekki nokkur einasta áhætta í þessu og þetta sé raunverulega þarflaust plagg. Til er svo mikið inni í þrotabúi Landsbankans að þetta er allt saman í himnalagi.

Mig langar því að spyrja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson. Finnst honum ekki óeðlilegt að fjárlaganefnd fékk ekki í fullum trúnaði að sjá eignasafn gamla Landsbankans og leggja mat á það sjálf hvað er þar inni og hversu verðmætt það er?

Og í öðru lagi: Ef það er mat þingmannsins að afgangur verði úr búi Landsbankans þegar upp er staðið, til hvers ræðum við þá þetta í kvöld? Búið er að framlengja lokagreiðsluákvæðið í Icesave-samningunum til ársins 2046. Þeir sem fæðast í dag verða orðnir 35 ára þegar lokagreiðslan á sér stað.