139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvers vegna stöndum við hér í kvöld og ræðum þetta mál? Ég held að það sé mjög mikilvægt að öllum hliðum sé velt upp á málinu eins og við höfum gert undanfarin tvö ár, getum við sagt. Það er mikilvægt að ræða málin.

Finnst mér óeðlilegt að fjárlaganefnd hafi ekki fengið aðgang að eignasafni Landsbankans til að meta það sjálfstætt? Um það vil ég segja að heppilegra hefði verið að fjárlaganefnd hefði haft aðgang að eignasafninu eða réttara sagt hefði getað fengið einhvern á sínum vegum til að meta eignasafnið. Ég hef ekki mikla trú á að þingmenn hafi aðgang að eignasafni sem þessu, ég held að þeir séu ekki sérfræðingar í að meta virði þess. Aftur á móti hefði það vissulega verið gott ef sérfræðingar á vegum þingsins hefðu metið það. En margar endurskoðunarstofur hafa metið eignasafnið fram og til baka. Í upphafi var það gert undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og með hjálp erlendra aðila og ég treysti því mati.

Hv. þingmaður spyr af hverju við séum að ræða þetta, ég hafi sagt að þetta væri ekkert mál og engin áhætta og við gætum bara klárað málið. Það eru miklar ýkjur að ég hafi sagt að áhættan væri engin. Ég sagði að það væri áhætta í málinu og rakti það.

Hvað varðar ártalið 2046 (Forseti hringir.) snýst það akkúrat um þennan efnahagslega fyrirvara. Ef hið ótrúlega gerðist að (Forseti hringir.) allt færi á versta veg höfum við alla vega þann tíma til að greiða þetta.