139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati var þetta heldur rýrt og þunnt svar. Hv. þingmaður telur að fjárlaganefnd hafi ekki forsendur eða faglega þekkingu til að leggja mat á eignasafn hins fallna banka.

Hv. þingmaður taldi í ræðu sinni áðan að inni í Landsbankanum væru svo dýrmætar eignir að það yrði jafnvel afgangur þegar búið væri að gera málið upp. Þetta finnst mér einkennilegt, sér í lagi þegar kemur hér fram í andsvari að endurskoðunarskrifstofur hafi metið eignasafnið. Ég vil benda á að sú endurskoðunarskrifstofa sem kom mest að matinu á eignasafninu er náttúrlega bresk og Bretar sitja allt um kring eins og hrægammar í kringum málið.

Því spyr ég á ný, úr því að þingmaðurinn er svona vel að sér í eignasafni hins fallna Landsbanka sem á að greiða þetta: Hvers vegna eru þá þessir efnahagslegu fyrirvarar settir inn? Af hverju rífum við ekki (Forseti hringir.) frumvarpið og látum Breta og Hollendinga hirða þetta þrotabú?