139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir spurninguna. Hann nefnir ögurstund í sögu þjóðar og það er vissulega rétt að þetta gæti verið ögurstund í sögu þjóðar. Þess vegna er viðeigandi að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í afgreiðslu þess vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið langt undan þegar er ögurstund í sögu þjóðar. [Hlátur í þingsal.]

Það er rétt að ég er bjartsýnn á eignasafnið, ég er það bjartsýnn að ég tel góðar líkur á því að við verðum ekki fyrir kostnaði af þessu. En ég get náttúrlega ekki svarið fyrir það og það er kannski rétt að hafa alla fyrirvara á þeirri bjartsýni minni. Það sem ég sagði var að allar vísbendingar sem maður hefur fengið væru í þá áttina.

Veit ég um fleiri góðar fréttir úr eignasafninu? Ég nefndi þrjár en ég man ekki í svipinn eftir fleiri jákvæðum fréttum. Ég verð eiginlega að svara: Nei, ég veit ekki um fleiri góðar fréttir, ekki í bili alla vega.