139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn var fjarverandi þegar ég talaði um hvernig þessar upphæðir væru allar til komnar. Nettóskuldbindingin á innstæðutryggingarsjóðinn er 67 milljarðar. Í sjóðnum eru til 20 milljarðar og 26 milljarðar eru í áfallna vexti frá 1. október 2009 til áramótanna síðustu. Greiða á það í eingreiðslu en það er partur af milljörðunum 67. Þegar við vorum komin niður í 47 milljarða taldi ég upp þrjá mismunandi hluti úr eignasafninu. Það var Iceland-verslunarkeðjan, Iceland Group og skuldabréfasafn upp á 90 milljarða, inni í þessu bixi öllu saman, og góðar fréttir væru af þessum hlutum. Þegar þetta er allt tekið saman, ef allt mundi rætast, liti út fyrir að jafnvel þyrfti ekki að borga þessa 47 milljarða.

Ég sagði að ég væri bjartsýnni á eignasafnið en menn hafa verið. Ég sagði að við gætum þess vegna endað með því að borga ekki neitt eða jafnvel fengið eitthvað smá í lommen. (Gripið fram í.) Það er með vöxtum, hv. þingmaður. (HöskÞ: Ekki neitt með vöxtum?)