139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni: Hvers vegna er þetta mál komið inn í þingið í þriðja sinn? Þá finnst mér að hv. þingmaður verði aðeins að rifja það upp, svo allrar sanngirni sé gætt, að stjórnarandstaðan öll tók þátt í að skipa samninganefnd til að reyna að ná samningum við Breta og Hollendinga. Þar komum við öll að málinu. Það er mín skoðun að þjóðaratkvæðagreiðslan og það að fyrri samningar hafi verið felldir úr gildi og síðan aðkoma stjórnarandstöðunnar í þessu máli hafi hugsanlega orðið til þess að þessi samningur náðist.

Hv. þingmaður hefði getað notað meiri tíma til að færa rök fyrir máli sínu, af hverju hún vill fella þessa samninga. Ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum annarra. Það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, 2. minni hluta, að ekkert er dregið úr áhættunni sem er í samningnum. Það vita allir hver hún er. Það eru endurheimtur úr búinu, hverjir ættu að greiða út úr búinu og gengisáhættan. Síðan er hugsanlega smávægileg vaxtaáhætta af því að vextir breytast 2016. Það er ekki gert lítið úr þessu.

Ég vek athygli á því að álit fjögurra virtra lögfræðinga sem unnu álitsgerð fyrir fjárlaganefnd eru misjöfn. Það voru engar deilur um það í nefndinni sjálfri, hvorki milli stjórnarliða né stjórnarandstöðu, hverjir lögfræðingarnir ættu að vera. Sumir telja miklar líkur á því, aðrir telja litlar líkur á því að dómsmál vinnist eða tapist. Síðan er niðurstaða allra sú að ekki er útilokað að dómsmál muni tapast. Það kemur mjög skýrt fram. Því til viðbótar kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar hverjir kostirnir eru og hvað við erum að vega og meta. Ég kalla eftir því að hv. þingmenn nýti frekar tíma sinn í að ræða (Forseti hringir.) af hverju þeir komast að þessari niðurstöðu en að agnúast út í aðra með einhverri rakalausri vitleysu.