139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

lækkun stýrivaxta.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Seðlabankinn hefur farið mjög hratt í lækkun stýrivaxta á undanförnum mánuðum. Það er raunverulega ótrúlegt að á þessum tíma, tveimur árum, hafi stýrivextir lækkað úr liðlega 18% niður í um 4%.

Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á kom fram hjá seðlabankastjóra í gær að það væri engin vissa fyrir því að stýrivextir mundu lækka frekar. Ég tók það svo að hann slægi því ekki föstu, það gæti verið háð ýmsu í efnahagslífinu, þróun gengis, verðbólgu o.fl. Það er auðvitað óvissa á markaðnum núna þegar kjarasamningar eru lausir og mikil óvissa með þá. Allt getur þetta haft áhrif. Ég geng ekki út frá því að við getum ekki haldið áfram með frekari lækkun vaxta.

Varðandi raunvextina eru þeir, eins og hv. þingmaður nefnir, um 2% þannig að þeir sem eiga innstæður í bönkum bera ekki mikið úr býtum. Það er að mörgu að hyggja í þessu.

Óvissan í efnahagsmálunum núna, það sem þarf að fara í og Seðlabankinn er að vinna að, varðar gjaldeyrishöftin og það er næst á dagskrá að skoða hvernig hægt verði að fara í þau. Það hefur auðvitað mikil áhrif hvernig það verður gert. Ég hef fulla trú á að það sé hægt að setja fram skynsamlega áætlun í þeim efnum eins og Seðlabankinn er að vinna að. Næsta verkefni á eftir, sem er byrjað á, er að endurskoða peningastefnuna. Það er vandasamt verk (Forseti hringir.) og að mjög mörgu að hyggja þar.