139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

aðildarviðræður við ESB.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það vantar nú ekki lýsingarnar hjá hv. þingmanni, að ég hafi teymt þingmenn í hópum inn í hliðarsal til að segja þeim hvernig þeir ættu að greiða atkvæði. Hvílíkt vald hef ég. En því miður hef ég ekki það vald þó að ég vildi. Það er bara þannig. Ég veit ekki hverju þingmaðurinn er vanur í sínum eigin röðum, að hann sé dreginn í dilk þegar hann er eitthvað óþægur og vill ekki greiða atkvæði, og það kannski í samræmi við stjórnarsáttmála. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að 68% þjóðarinnar vilja að þessi ferill haldi áfram.

Skoðanir voru skiptar þegar við lögðum upp í þetta stjórnarsamstarf milli flokkanna en þó var ákveðinn leiðarvísir gefinn um það hvernig þessu ferli skyldi hagað. Þingmenn hafa síðan frjálsar hendur með það, eins og allir aðrir, þegar við komum heim með samning, vonandi það góðan að hann verði samþykktur, hvernig þeir fara í þá umræðu og hvernig þeir greiða atkvæði.