139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hagfræðin er skrýtinn kýrhaus. Við höfum nokkra hagfræðinga í okkar röðum og þeir virðast innbyrðis vera algerlega ósammála um lykilatriði. Ég teldi það mjög farsælt fyrir þetta mál ef t.d. hagfræðingar Sjálfstæðisflokksins ræddu saman. Þá væri kannski hv. þingmaður búinn að fá einhver svör við öllum þeim spurningum sem hann telur að hann vanti til að geta gert upp hug sinn.

Lykilspurning mín til hv. þingmanns er: Hver er afstaða hans? Ætlar hann að smokra því fram af sér að taka afstöðu af því að hann þykist ekki hafa nægileg gögn eftir tveggja mánaða yfirlegu í þessu máli? (Gripið fram í.) Það er ekki boðlegt. Hver er afstaða hv. þingmanns?

Önnur spurning er þessi: Er hv. þingmaður ósammála hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem sagði í gær með sterkum rökum að það væru góðar líkur á því að Íslendingar þyrftu ekki að greiða neitt þegar upp væri staðið? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)