139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki alveg svo einfalt. Ég er ekki lögfræðingur þannig að ég veit ekki nákvæmlega til hvaða dómstóla málið getur farið en eftir því sem mér skilst þá heyrir það undir Evrópudómstólinn (Gripið fram í: Ekki samkvæmt …) og ef það heyrir ekki undir hann þá getur hann hugsanlega tekið málið til sín engu að síður og sagt að við uppfyllum ekki skilyrði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Okkur getur verið sparkað út úr því, ég veit ekki hvað menn meta það mikið tjón.

Það sem eftir stendur er að við gætum verið dæmd vegna jafnræðis og þó að ég viti að íslenskir sparifjáreigendur hafa tapað verulega miklu vegna gengisfalls krónunnar, verulega miklu, 20–30%, og séu þar af leiðandi ekki jafnsettir þá gæti einhver komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar ættu að greiða allar innstæður í Icesave. (Forseti hringir.) Það yrði óbærilegt.