139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel hæstv. fjármálaráðherra, að hann geti ekki tjáð sig með afgerandi hætti um það hverjar hann telji að niðurstöður verði úr dómsmálum. Ég deili svo sem skoðun hans á því að ég vona svo sannarlega að neyðarlögin haldi. En ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér, einmitt á grundvelli þess sem við ræddum þá kannski um önnur málaferli, hvernig í ósköpunum það ætti að vera hægt að dæma okkur til að standa við meira en lágmarkstrygginguna í innstæðusjóðnum sem er síðan umdeilanlegt hvort ríkisábyrgð sé á, hvernig í ósköpunum það ætti að vera hægt að dæma okkur til að borga að fullu allar innstæður. Það má auðvitað benda á að Bretar hafa svo sannarlega mismunað þegnum sínum og innstæðueigendum eftir því inn á hvaða banka þeir höfðu lagt og einnig má benda á að bæði Hollendingar og Bretar fóru ekki sömu leið, eða að fullnusta þessar innstæður þegna sinna, mér þætti það mjög sérkennilegt.

Mér finnst í lok þessarar umræðu að hún hafi kannski snúist svolítið um það að sumir telji að ekki sé þorandi að fara í málaferli og séu tilbúnir að fara samningaleiðina jafnvel þó að ekki sé búið að tryggja að sú áhætta sem við svo sannarlega erum að takast á við sé eins lítil og hægt er. Sjálfum hefði mér kannski þótt það eðlilegast að við mundum reyna að stefna að samningi en þá yrðum við að hafa hann með þeim hætti að við vissum nákvæmlega hvað við værum að takast á hendur, að það væri engin áhætta fólgin í því. (Forseti hringir.)