139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Eitt af þeim vandamálum sem Alþingi Íslendinga glímir við er að það er ekki kannað nægilega vel hvaða rök eða álit liggja til grundvallar einstökum málum. Mér hefur fundist það ljóður á ráði Alþingis en kannski er það fyrst og fremst ástæðan fyrir því að þjóðin ber afar lítið traust til Alþingis og að virðingin fyrir stofnuninni er sama og engin.

Það er staðreynd að hér eru samþykkt lög trekk í trekk sem standast ekki nánari skoðun annarrar löggjafar og dómstólar dæma þau þess vegna ógild. Ég held að nærtækasta dæmið sé stjórnlagaþingið en ég held að ef menn hefðu vandað betur til lagasetningarinnar, kallaðir hefðu verið til færustu sérfræðingar um kosningalöggjöfina, ekki bara þeir sem sömdu lögin heldur fleiri til að varpa ljósi á öll helstu álitaefnin, hefði ekki farið eins og fór. Ég held að þetta sé svo stór galli á Alþingi að á hverju ári tapist gríðarlegir fjármunir vegna þess að Alþingi er einfaldlega ekki í stakk búið til þess að búa til lög sem eru þannig úr garði gerð að hægt sé að búa við þau til langs tíma. Auðvitað á þetta ekki við í öllum tilvikum en þetta er eitt af því sem rannsóknarnefndin sagði að þyrfti að laga. Þingmenn eru sammála um það og samþykkt var þingsályktunartillaga þess efnis með öllum greiddum atkvæðum en ríkisstjórnin, handhafar framkvæmdarvaldsins, breytir engu.

Ég hef verið ánægður með svör hæstv. fjármálaráðherra. Mér finnst hann öðrum fremur hafa lagt sig fram um að koma með réttar upplýsingar en mér hefur þótt hann vera ónákvæmur og ég hef verið ósammála mörgu af því sem hefur komið fram. Stundum finnst mér hann hafa fallið í þá gryfju að fullyrða eitthvað sem á sér ekki rök í raunveruleikanum. Rétt áðan fullyrti hann í andsvari við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að í gögnum málsins lægju frammi ítarleg álit og matsgerðir á því hver áhættan væri af því að fara í dómsmál. Það rétta er að fyrir fjárlaganefnd var lögð matsgerð fjögurra lögfræðinga sem meta ýmsa þætti málsins, þar á meðal dómstólaleiðina, kosti og galla. Þessi fjögur komast að ólíkri niðurstöðu og mat þeirra er því mjög ónákvæmt enda er það bara á 12 blaðsíðum og niðurstöðukaflinn þar sem þau segja að það geti bæði verið gott og slæmt að fara í mál er heilar sjö setningar. Þess vegna óskaði ég eftir því að þetta yrði kannað nánar og metið vegna þess að ég taldi þetta lykilatriði við úrlausn málsins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal óskaði eftir því í ræðustól að fjárlaganefnd mæti þessi atriði. Ég benti honum á að ég hefði óskað eftir því í fjárlaganefnd og að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki stutt mig í þeirri málaleitan. Kannski hafa þeir verið búnir að ákveða fyrir þó nokkru síðan að samþykkja málið og töldu þess vegna ekki ástæðu til að fá frekari gögn. Þetta er sama heilkenni og hefur einkennt meiri hlutann og stjórnarliða. Áður en samningarnir lágu á borðinu var fullyrt að það ætti að samþykkja þá. Þingmenn Samfylkingarinnar hrópuðu úr hornum að það yrði að samþykkja Icesave óséð. Það var heldur betur gott að það var ekki gert vegna þess að ef það hefði verið gert hefði það þýtt óbærilegar skuldir fyrir komandi kynslóðir, fyrir börnin okkar sem við erum að starfa fyrir. Við ætlum að búa þeim góða framtíð og sú góða framtíð verður að vera byggð á rökum.

Eitt af því sem hefur komið fram er að Evrópudómstóllinn sé ekki nægilega hlutlaus í málinu, eða EFTA-dómstóllinn eftir atvikum. Ég hef þó heyrt flesta sem hafa tjáð sig um málið af þekkingu meta það svo að lagaleg staða okkar sé sterk, með öðrum orðum séu meiri líkur en minni á að við mundum vinna málið. Í sjálfu sér hefur engin umræða farið fram um hvað gerðist ef við ynnum. Það mundi þýða að orðspor Íslendinga á erlendum vettvangi yrði mun sterkara en áður og að virðing fyrir landi og þjóð sem stendur í lappirnar og berst gegn kúgun stærri ríkja mundi aukast. Við njótum virðingar í alþjóðasamfélagi vegna þess að við stóðum í lappirnar í þorskastríðinu en því miður berjast hér aðeins þingmenn stjórnarandstöðunnar. Í þorskastríðinu börðust allir eða velflestir.

Vegna þeirrar fullyrðingar að erlendir dómstólar séu óhlutdrægir — sem ég held að sé reyndar rangt, við verðum að treysta dómstólum. Engin rök hafa verið lögð fram um slíkt, aðeins hræðsluáróður — bendi ég á að þessir fjórir sérfræðingar eru sammála um að ef samkomulag um Icesave yrði ekki staðfest yrði málið höfðað hér á landi. Um það segir á bls. 2, með leyfi forseta:

„Mál þetta yrði væntanlega höfðað hér á landi en þó er ekki útilokað að málið yrði höfðað fyrir erlendum dómstól.“

Með öðrum orðum telja þau meiri líkur á að málið yrði höfðað hér á landi og ég hef ekki heyrt neinn þingmann lýsa yfir áhyggjum af því að íslenskir dómstólar mundu leggjast á sveif með Bretum og Hollendingum eins og meiri hlutinn í þinginu hefur oft gert. Ég held að við ættum ekkert að óttast í því máli. Þetta er einn misskilningur sem hefur komið fram.

Annar misskilningur er sá að við þyrftum hugsanlega að greiða meira en þær 20.887 evrur sem við greiðum samkvæmt samningnum sem nú liggur fyrir og er til umræðu. Þessir fjórir lögfræðingar segja, með leyfi forseta:

„Ólíklegt verður að telja að dómur um fullar endurgreiðslur gangi …“

Með öðrum orðum telja þau afar litlar líkur á því og svo halda þau áfram og rökstyðja það ágætlega. Þau segja: Það eru engar líkur á því að við munum þurfa að borga meira.

Síðan kemur að því að meta hvort við þurfum að borga það sama í rauninni og við erum að borga í dag. Þar eru þau ósammála. Sum segja að það séu litlar líkur á því, lagaleg staða okkar sé svo sterk. Það er í rauninni í sama anda og lögmannsstofa erlendis, Mishcon de Reya, og erlendir lagaprófessorar í Noregi hafa komist að niðurstöðu um. Jafnvel hefur breska fjármálaeftirlitið sjálft látið hafa eftir sér orð sem ekki er hægt að túlka á annan veg en þann að ekki sé ríkisábyrgð á bak við málið. Síðan er þetta dæmalausa viðtal Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Mervyns Kings, seðlabankastjóra Bretlands, en annar þeirra vill ekki að það verði birt. Maður veltir fyrir sér af hverju það sé. Hefur maðurinn eitthvað að fela? Skyldi hann hafa sagt eitthvað sem gæti gert það að verkum að réttarstaða Breta og Hollendinga yrði mun verri en ella? Geta þessi ummæli verið þess eðlis að þau mundu leiða það af sér að íslenska þjóðin segði: Nú, þannig var málum háttað, nú látum við reyna á fyrir dómstólum. Það er kannski líka þess vegna sem meiri hlutinn á Alþingi hefur ekki beitt sér fyrir því að þetta samtal yrði birt. Það er í rauninni með ólíkindum.

Þarna liggur hundurinn grafinn, virðulegi forseti. Ég tel meiri líkur en minni á því að við munum vinna dómsmálið. Ég held að meiri hluti alþingismanna telji það líka. Sumir segja að ef við mundum tapa gæti það í versta falli, sem eru reyndar minni líkur á, haft í för með sér verri niðurstöður fyrir Íslendinga. En það er líka hægt að skoða það. Hvað gæti hugsanlega gerst? Í fyrsta lagi liggur fyrir að höfuðstóllinn væri nákvæmlega sá sami og við erum að borga í dag. Bretar og Hollendingar hafa aldrei gefið okkur neinn afslátt af höfuðstólnum.

Vextirnir gætu orðið hærri. Ég efast reyndar um að Bretar og Hollendingar nenni að setjast enn einu sinni niður með Íslendingum til að semja um vextina. Ég tel langlíklegast að þeir mundu einfaldlega segja: Jæja, gott og vel, nú er búið að dæma að þið eigið að borga þessar 20.887 evrur. Það er það sem við sömdum um áður fyrr og við skulum bara láta samninginn gilda, samninginn sem nú liggur á borðinu. En gefum okkur að þeir mundu ekki líta þannig á málið og detta í harðari gír en það. Það er vissulega möguleiki á því þótt lítill sé. Þá gætum við hugsanlega verið í þeirri stöðu að við yrðum að borga það sama og ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur barist fyrir að við mundum borga og var samþykkt tvisvar sinnum af hálfu meiri hlutans. Það er öll áhættan. Það er áhætta sem meiri hlutinn hefur sagt ítrekað að sé að hans mati ásættanleg niðurstaða. Hann hefur talað um Kúbu norðursins ef við samþykktum það ekki. Það er í versta falli niðurstaðan sem við gætum fengið. En þetta vill meiri hlutinn ekki kanna vegna þess að hann óttast að niðurstaðan verði honum í óhag. Reyndar held ég að þeir viti að niðurstaðan verði þeim í óhag. Þetta er ekki það sem við ætlum að bjóða komandi kynslóðum. Þetta er ekki það sem við ætlum að bjóða ungmennum landsins sem hafa lagt leið sína á palla Alþingis til að hlusta á umræður um Icesave-málið.

Það er annað sem hefur verið misfarið með í þessu máli og það er að Samtök atvinnulífsins og ASÍ eru ekki reiðubúin að koma fram og biðjast afsökunar á afstöðu sinni í Icesave-málinu. Þau hafa sagt frá upphafi, áður en öll gögn lágu frammi, að það ætti að borga, það væri best fyrir hagsmuni Íslendinga. Allan tímann hafa þau sagt að það ætti að borga og þau segja það enn: Við viljum bara klára málið. Þetta er eins óábyrg afstaða og hugsast getur. Að sjálfsögðu vilja allir klára málið, allir, hver og einn einasti alþingismaður, hver og einn einasti Íslendingur en það skiptir máli hvernig og það skiptir máli hvort við eigum að borga eða ekki. Ég held að það sé mjög ríkt í íslensku þjóðarsálinni að vilja standa við skuldbindingar sínar. En það er líka ríkt í íslensku þjóðarsálinni að láta ekki valta yfir sig á skítugum skónum. Íslendingar eru vanir því að standa upp og mótmæla óréttlæti hvar sem það birtist. Þess vegna búum við í góðu landi og það er þess vegna sem okkur hefur tekist að skapa, þó ekki að fullu, lýðræðislegt umhverfi hér á landi. Þess vegna tel ég að Samtök atvinnulífsins og forsvarsmenn ASÍ, ég ætla ekki að tala um þá sem undir þá heyra, ættu að koma fram og biðjast afsökunar. Einn ráðherra hefur (Forseti hringir.) imprað á því að hann sjái eftir baráttu sinni, hæstv. utanríkisráðherra, og aðrir þingmenn meiri hlutans mættu feta í fótspor hans.