139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í umræðum um málið höfum við heyrt sama málflutning frá stjórnarliðum aftur og aftur, hvort heldur er í umræðum um Icesave 1, Icesave 2 eða núna Icesave 3. Það er sem sagt endalaus endurnýting á málflutningi þótt við höfum aftur og aftur séð að málflutningurinn stenst ekki. Hvað eftir annað hefur komið á daginn að málflutningur og röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar í þessu máli hafa ekki staðist á nokkurn hátt og raunar yfirleitt þveröfugt eins og t.d. varðandi áhrif á gengi gjaldmiðilsins og svo sérstaklega stöðu Íslands sem lántaka.

Ég fjallaði í fyrri ræðu um ýmsar áhættur sem enn eru til staðar í nýjustu tillögunni að Icesave-samningi. Stærsta áhættan segja menn að sé að Íslendingar kunni að tapa dómsmáli með þeim hætti að neyðarlögunum verði hnekkt eða okkur verði gert að greiða allar innstæður. Í fyrsta lagi fæ ég ekki séð hvernig í ósköpunum dómstóll ætti að geta komist að því að íslenska ríkið eigi allt í einu að ábyrgjast allar innstæður vegna þess að það liggur fyrir að upphæðin nemur 20 þúsund evrum, þeirri umdeildu upphæð, hvernig ætti að vera hægt að rökstyðja að það fari yfir það? Þá benda menn á neyðarlögin en þau hafa einmitt orðið til þess að skila Bretum og Hollendingum gríðarlegum ávinningi. Þau settu stöðu þeirra í forgang sem innstæðueigenda þannig að þeir hagnast á neyðarlögunum um mörg hundruð milljarða. Ef við segjum að sú langsótta niðurstaða yrði að dæmt yrði þannig að Íslendingar ættu að ábyrgjast allar innstæður alls staðar væri raunar verið að ganga enn þá meira á Íslendinga en orðið er vegna þess að, eins og ég nefndi fyrr í dag í andsvari, í rauninni er búið að tryggja miklu betur verðmæti eigna innstæðueigenda í Landsbankanum í útlöndum en á Íslandi, sem sé Icesave, vegna þess að breskir og hollenskir innstæðueigendur fá sitt greitt í pundum og evrum. Þeir endurheimta í nánast öllum tilvikum 100% af þeim verðmætum sem þeir settu þar inn. Íslenskir innstæðueigendur fá hins vegar ekki þá verðmætatryggingu. Þeir fá sitt í íslenskum krónum, sem þýðir að þeir tapa tugum prósenta af þeim verðmætum sem þeir áttu í bankanum.

Ætli menn hins vegar að ganga enn meira á hlut Íslendinga í niðurstöðu dómsmáls og láta þá ábyrgjast allt saman, hvert er þá tapið af því? Það virðist ekki vera svo mikið samkvæmt upplýsingum úr þrotabúi Landsbankans vegna þess að, eins og stjórnarliðar hafa keppst við að benda á, þar eru eignir til að standa undir megninu af höfuðstólnum. Ekki nóg með það heldur er nú orðið ljóst að ég hafði meira að segja víxlað stöðu mála í Glitni og í Landsbankanum og talið að Landsbankinn hefði flokkað heildsöluinnlánin sem forgangskröfur. Því er öfugt farið. Það er búið að taka heildsöluinnlánin með í reikninginn sem þýðir að gert er ráð fyrir að þrotabúið muni standa undir öllu saman hvort eð er þannig að jafnvel þótt sú langsótta niðurstaða yrði að dómsmál tapaðist með þeim hætti að Íslendingar yrðu dæmdir til að ábyrgjast allt heila klabbið, hver er þá vandinn sem ríkisstjórnin og fulltrúar hennar eru búin að fjalla svo ítarlega um? Eignirnar eru til staðar í þrotabúinu hvort eð er.

Þá kunna einhverjir að segja: Ja, hugsanlega verða menn svo dæmdir til að greiða hærri vexti en nú er rætt um. Hvernig í ósköpunum ætti að rökstyðja það? Þeir vextir sem gert er ráð fyrir að greiða miðað við núverandi tilboð eru þannig fundnir út að þeir nægi til að standa straum af fjármögnunarkostnaði Breta og Hollendinga. Hvernig í ósköpunum ætti dómstóll að geta dæmt það, jafnvel þótt hann væri pólitískur dómstóll og kysi að líta fram hjá lögunum og dæmdi Íslendingum í óhag? Að greiða ætti hærri vexti en nemur kostnaði? Nei, niðurstaðan hlyti að snúast um það að bæta tjónið þannig að áhættan er ákaflega lítil fyrir Íslendinga. Hún er hins vegar mjög mikil fyrir Breta og Hollendinga. Þess vegna held ég að það sé rétt sem fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals fyrr í dag að Bretar og Hollendingar munu ekki vilja fara í dómsmál vegna þess að sama hvor niðurstaðan er kemur það sér ákaflega illa fyrir þessar þjóðir og efnahagslega stöðu þeirra.

Þá stendur eftir hin hliðin á áhættunni, allt það tjón sem íslenskir skattgreiðendur geta orðið fyrir og það verður óljóst um áraraðir. Á hverju ári munu menn þurfa við gerð fjárlaga að taka tillit til þróunar á mörkuðum í útlöndum og sjá hvernig verðmæti eigna þrotabús Landsbankans þróast. Þar getur hæglega munað tugum milljarða, jafnvel bara dagamunur getur verið tugir milljarða.

Hér hefur ein af eignum þrotabúsins, Iceland-verslanakeðjan, verið nefnd. Hún sveiflast í verðmæti um tugi milljarða ein og sér. Fjármálaráðherra þyrfti á hverjum tíma að líta til þróunar verðs á verslanakeðjunni í Bretlandi og ýmsu öðru við mat á því hversu mikið hann getur sett í heilbrigðisþjónustu eða löggæslu eða annað. Það væri sem sagt búið að gera íslenska ríkið að áhættufjárfesti. Sumir telja að með því að klára þetta mál núna með þessum hætti losni þeir a.m.k. við umræðuna um Icesave. Það heyrir maður stundum, ótrúlegt en satt, að menn séu bara svona leiðir á umræðunni og þess vegna verði að ljúka málinu. Þeim skjátlast sem halda að þeir geti losnað við umræðuna með því að klára það með þessum hætti vegna þess að Ísland væri þá búið að gera risastórt veðmál og við gætum fylgst með því dag frá degi hvernig sveiflurnar eru í því sem gerir áætlanagerð ríkisins enn þá erfiðari en nú er og mun að sjálfsögðu leiða til niðurskurðar, það er bara spurning hversu mikils, til að standa straum af þessu. Það er rétt að ítreka að þó að munurinn á gamla samningnum og nýja sé mikill eru tölurnar sem um er að ræða engu að síður gríðarlega háar. Við erum búin að deila mikið um 3 milljarða í heilbrigðiskerfinu í niðurskurði núna. Það er bara brotabrot af sveiflunum í verðmæti þeirra eigna sem eiga að standa undir Icesave.

Þó að einhverjir séu tilbúnir til að fallast á að ríkið taki þetta veðmál, fari í rúllettu með skattfé almennings til framtíðar, verður leyfi fyrir því að koma frá þjóðinni sjálfri milliliðalaust, ég tala nú ekki um eftir að búið er að vísa þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu nú þegar. Ef þingmenn vilja undirrita óútfylltan tékka fyrir hönd þjóðarinnar gera þeir það ekki án þess að biðja um leyfi. Það getur verið að einhverjir og eflaust margir séu þeirrar skoðunar að þeir vilji bara klára málið núna, vilji fallast á þessa samninga, vilji losna við umræðuna, vilji losna við einhverja óljósa og mjög illa útskýrða áhættu af dómstólum — við skulum hafa í huga að þegar upp verður staðið snýst þetta ekki um EFTA-dómstólinn og álit hans heldur Héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt Íslands. Kannski vilja menn bara losna við að þurfa að velta málinu fyrir sér meira og koma því frá. En menn verða þá að vita hvað þeir eru að taka ákvörðun um. Ákvörðunin snýst ekki um að klára málið núna til þess að auka erlenda fjárfestingu. Nei, komið hefur fram að við þurfum að halda gjaldeyrishöftunum áfram ef við ætlum að fallast á þennan samning. Það snýst ekki um að Ísland verði álitið traustari lántaki með því að auka skuldsetningu landsins, það höfum við séð nú þegar í þróun skuldatryggingarálagsins frá því að síðasta Icesave-tilboði var hafnað. Það snýst sem sagt ekki um hagkvæmni. En kannski vilja menn hlaupa undir bagga með breska og hollenska ríkinu. Bæði þessi lönd eru í verulegum efnahagslegum erfiðleikum. Það kann vel að vera að menn vilji bara styðja þau. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að menn muni vilja samþykkja þetta en aðalatriðið er að þingmenn geta ekki leyft sér að leggja framtíðarskattgreiðslur almennings undir í veðmáli, (Forseti hringir.) undirrita óútfylltan tékka án þess að biðja um leyfi fyrir því.