139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég átti eftir að fara yfir hluta úr áliti mínu og sagði í ræðu fyrr í dag að ég mundi gera það. Mig langar að fara yfir áhættumat. Ég sagði í fyrri ræðum mínum að það væri vandamál á Alþingi hve mál væru illa unnin og hvað erfitt væri að fá menn og konur til að afla upplýsinga væru þau búin að taka afstöðu í máli. Það gerðist í Icesave-málinu, um leið og Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir voru búin að ákveða að samþykkja var eins og þau teldu ekki þörf á að fá fleiri gögn, t.d. lagalega greiningu á áhættunni af að höfða dómsmál. Samt byggja sjálfstæðismenn niðurstöðu sína á því að þeir meti áhættuna of mikla án gagna sem mér finnst undarleg afstaða.

Ég ætla að koma inn á pólitísk álitaefni. Það hefur verið fullyrt í umræðunni að ef við borgum ekki Icesave muni eitthvað hræðilegt gerast. Samfylkingarmenn halda því fram að það sé allt stopp út af Icesave. Margar skelfilegar greinar hafa verið skrifaðar í blöð af þingmönnum Samfylkingarinnar, með fullri virðingu fyrir þingmönnunum, um að allt fari til andskotans en tíminn hefur sýnt að það var ekki rétt. Hagvöxtur er lítill, Evrópusambandið spáir því að aðeins verði 0,7% hagvöxtur á þessu ári.

Hvað gat farið í gang? Ég veit að Búðarhálsvirkjun var sett af stað fyrir löngu, þar voru hafnar framkvæmdir þótt þær hafi ekki verið miklar. Nú liggur fyrir að þar er hægt að fara í stærri framkvæmdir. Mér hefur borist til eyrna að það eigi að bíða með ákvörðunina þangað til búið er að samþykkja Icesave. Ríkisstjórnin þarf að geta sagt að Icesave hafi leyst eitthvað úr læðingi. Þetta er alveg ótrúlegt. En þetta er eina framkvæmdin sem mun fara af stað í orkumálum vegna þess að allar aðrar framkvæmdir, Hellisheiði sem hefur verið á fullu, neðri hluti Þjórsár, Þeistareykir og Bjarnarflag, hafa verið stoppaðar út af andstöðu stjórnvalda, út af andstöðu meiri hlutans við að fara í virkjanir og búa til atvinnu. Það mun ekkert breytast þótt við samþykkjum Icesave. Það er hægt að kanna þetta og fara yfir það ef menn vilja.

Síðan hafa Samtök atvinnulífsins og ASÍ fullyrt að fyrirtæki hafi ekki fengið lán. Marel fjármagnaði sig í hollenskum bönkum sem ættu þó að vera hvað svekktastir út í Íslendinga. Þar með er röksemdin fallin um sjálfa sig. Öll önnur fyrirtæki hafa fjármagnað sig. Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sögðu mér að Icelandair hefði ekki getað fjármagnað sig. Hvað gerir maður? Tekur upp símann og spyr: Náði Icelandair að fjármagna sig þrátt fyrir Icesave? Já, var svarið. Icesave hefur ekkert að gera með fjármögnunarmöguleika einhvers stærsta fyrirtækis á Íslandi, bara núll og nix. En þetta er málflutningur meiri hlutans. Samfylkingarþingmenn hafa náð yfirburðum í þessum málflutningi og eru fremstir í flokki þeirra sem gefa út yfirborðskenndar og órökstuddar fullyrðingar. Ég hélt að menn hefðu lært af mistökunum, ég hélt það. En það er ekki þannig. Þeir koma enn á ný og ætla að halda þessum málflutningi áfram. (Forseti hringir.)